Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Allt leikur á reiðiskjálfi í Ófærð 2

Mynd: RVK Studios / RVK Studios

Allt leikur á reiðiskjálfi í Ófærð 2

08.05.2018 - 15:43

Höfundar

Frumsýning á fyrstu stiklunni úr Ófærð 2. Sýningar hefjast á RÚV í vetur, en þáttanna er beðið eftir með mikilli eftirvæntingu. Tekist er á við hitamál líðandi stundar í þáttaröðinni, segir Baltasar Kormákur leikstjóri.

Fram að þessu hefur lítið komið fram um söguþráð Ófærðar 2 en stiklan, sem frumsýnd er hér, varpar ljósi á ýmislegt sem hingað til hefur einungis verið ýjað að.

Í grunninn virðast þættirnir fjalla um rannsókn á andláti tveggja manna. En söguþráðurinn er öllu flóknari en það segir Baltasar Kormákur leikstjóri. „Áhorfendur mega búast við seríu sem er lík þeirri fyrri, en að mörgu leyti mjög ólík.“

Mynd með færslu
 Mynd: RVK studios

Þáttaröðin fjallar um hitamál líðandi stundar, eins og erlent vinnuafl og stóriðju. „Inn í þetta kemur þjóðernishyggja, mörk hennar og aðstaða fólks sem býr í uppsveitum,“ segir Baltasar. Umhverfismál koma einnig við sögu, hálendið og virkjun þess. „Mér finnst best takast þegar spennusögur fjalla um samfélagið og alvarleg mál á áhugaverðan hátt,“ segir hann.

epa05545551 Icelandic film director Baltasar Kormakur poses during the photocall of the film 'Eidurinn' at the San Sebastian International Film Festival, in San Sebastian, Spain, 18 September 2016. The 64th edition of the film festival runs from
 Mynd: EPA - RÚV

Allt leikur bókstaflega á reiðiskjálfi í stiklunni, vegna jarðborana og virkjanaframkvæmda. „Við notum ýmis mál í kringum okkur til að skapa ákveðið samhengi,“ segir Baltasar, „menguð vatnsból og fleira.“ Þá hefur verið gott að hafa Yrsu Sigurðardóttur, verkfræðimenntaðan glæpasagnahöfund, innanborðs en hún kom að handriti þáttanna. „Hún veitti okkur innsýn í ýmsa hluti varðandi virkjanir og áhrif þeirra á umhverfið. Við nýtum okkur alla þá þekkingu sem stendur okkur til boða.“

Ófærð 2 fjallar um aðskilin mál og áhorfendur sem hafa ekki séð fyrri þáttaröðina eiga að geta notið hennar, þó vissulega skemmi ekki fyrir að þekkja til framvindu mála. Fyrri þáttaröð Ófærðar naut mikilla vinsælda, innanlands sem utan. Þar má nefna að 5,7 millj­ón­ir sáu fyrstu þætti Ófærðar í Frakklandi og að meðaltali horfðu 1,2 millj­ón­ir á þætt­ina á BBC 4 í Bretlandi.

Sýningar á Ófærð 2 hefjast á RÚV í haust.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Baltasar segir Adrift erfiðasta verkefnið sitt

Sjónvarp

Ófærð á lista BBC yfir mest spennandi þætti

Sjónvarp

Ófærð snýr aftur í haust

Sjónvarp

„Nóg af hörmungum, dauða og skelfingu“