Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Allt í steik hjá Chelsea

epa05011194 Chelsea manager Jose Mourinho during the UEFA Champions League group G soccer match between Chelsea and Dynamo Kiev at Stamford Bridge in London, Britain, 04 November 2015.  EPA/ANDY RAIN
 Mynd: EPA

Allt í steik hjá Chelsea

08.12.2015 - 20:05
Allt gengur á afturfótunum hjá José Mourinho og liðsmönnum hans í Chelsea. Mourinho virðist ráðalaus og leikmenn sem blómstruðu í fyrra eru gjörsamlega heillum horfnir. Liðið rúllaði deildinni upp í fyrra en er nú tveimur stigum frá falli. Liðið hefur tapað 8 af 15 leikjum í deildinni og gæti fallið úr Meistaradeildinni á miðvikudag.

Aldrei í sögunni hafa Englandsmeistarar byrjað titilvörnina jafn illa og Chelsea að þessu sinni. Liðið taðaði um helgina fyrir nýliðum Bournemouth sem hafa aldrei áður spilað í efstu deild. Bournemouth hafði aðeins unnið tvo leiki í vetur en mættu á heimavöll Chelsea fullir sjálfstrausts.

Allt að hjá Chelsea

Michael Cox fjallar um skelfilegt gengi Chelsea í Guardian. Hann segir ómögulegt að benda á megin vandamálið hjá Chelsea því í raun sé allt að. Markvörðurinn Thibaut Courtois hefur verið frá vegna meiðsla lungann úr vetrinum. Hann var aftur á móti á milli stanganna í leiknum gegn Bournemouth en gerði mistök í aðdraganda marksins hjá Glenn Murray. Vörnin hefur verið hrikaleg í vetur og aðeins fimm neðstu lið deildarinnar hafa fengið á sig fleiri mörk. Varnarleikur hefur jafnan verið aðalsmerki liða undir stjórn Josés Mourinho.

Hazard spilað 25 leiki án þess að skora

Nemanja Matic og Cesc Fàbregas léku óaðfinnanlega saman framan af síðasta keppnistímabili en hafa í vetur ekki verið svipur hjá sjón. Diego Costa virkar áhugalítill og jafnvel meiddur í framlínunni og Eden Hazard hefur spilað 25 leiki í röð án þess að skora mark. Það er einstakt hjá manni sem valinn var leikmaður ársins 2014. Reyndar hefur liðið aðeins skorað 17 mörk í fyrstu 15 leikjum sínum en á síðasta tímabili voru mörkin tvöfalt fleiri, eða 34. Þá hafði Costa skorað 11 mörk en aðeins þrjú í ár. Eden Hazard og Loïc Rémy hafa hvorugur náð að skora og Falcao og Pedro eiga eitt mark hvor. Eini ljósi punkturinn í liðinu hefur verið Willian en mörk úr aukaspyrnum hafa verið sérgrein hans. Hann hefur þó aðeins skorað tvö deildarmörk í haust.

Leikmenn einfaldlega andlega og líkamlega búnir á því

Michael Cox segir að þegar allt sé í steik á öllum sviðum sé erfitt að kenna tæknilegum eða taktískum áherslum um slæmt gengi liðsins. Leikmenn eru einfaldlega andlega og líkamlega búnir á því. Þetta hefur reyndar frekar verið regla en undantekning hjá liðum undir stjórn Josés Mourinho. Þegar hann var kynntur til leiks öðru sinni sem knattspyrnustjóri Chelsea árið 2013 benti hann réttilega á að árangurinn kæm venjulega í ljós hjá liðum undir hans stjórn á öðru ári. Þetta var raunin hjá Porto, Inter, Real Madrid og bæði skiptin hjá Chelsea. Hann lét hins vegar ósagt að hann hefur aldrei unnið titil á þriðja ári. Hjá Porto og Inter reyndi aldrei á þetta þriðja ár, því hann yfirgaf þessi lið fyrir önnur stærri. Hjá Real Madrid og í báðum tilvikum hjá Chelsea hafa liðin lent í miklum vandræðum á þriðja ári.

Terry og Ivanovic spiluðu hverja einustu mínútu

Rætt hefur verið um að leikmenn verði einfaldlega þreyttir á þessum sérlundaða knattspyrnustjóra en þeir verða ekki síður líkamlega örmagna á endanum. Mourinho er vanur að keyra á sama mannskapnum í öllum leikjum og síst vill hann breyta vörninni. John Terry og Ivanovic spiluðu hverja einustu mínútu á síðasta keppnistímabili og Hazard byrjaði hvern einasta leik og var aldrei tekinn af velli nema einstaka sinnum í blálokin. Það ætti því ekki að koma neinum á óvart að þessir tilteknu leikmenn hafa virkað örþreyttir og útkeyrðir í haust. Diego Costa hefur verið að spila hálfmeiddur síðustu 18 mánuðina. Það er lýjandi til lengdar þótt eitthvað virðist líka vera að angra hann á andlega sviðinu.

Matic og Fàbregas ekki svipur hjá sjón

Því má ekki gleyma að Chelsea fataðist flugið eftir áramót á síðasta keppnistímabili þótt liðið hafi unnið deildina nokkuð örugglega. Helsta breytingin þá var spilamennska Matic og Fàbregas á miðjunni. Framan af voru þeir langöflugasta miðjuparið í deildinni en verulega fór að draga af þeim þegar leið á tímabilið. Í haust hafa þeir varla verið svipur hjá sjón. Í ofanálag hefur Fàbregas ekki sömu varnarskyldum að gegna og Matic. Hann er með lungann af varnarvinnunni á sínum herðum og því eru aldraðir varnarmenn oft berskjaldaðir. Ramires væri líklega oftar notaður á miðsvæðinu en hann hefur verið frá vegna meiðsla.

Mourinho finnur ekki rót vandans

Mourinho lýsti því yfir eftir leikinn gegn Bournemouth að hann stefndi ekki lengur á neitt ákveðið sæti í deildinni og viðurkenndi að meistaradeildarsæti væri ekki lengur í augsýn. Liðsmenn Chelsea spila kannski ekki eins illa og fyrr í haust en ekkert bendir til þess að Mourinho sé búinn að finna rót vandans.

Alex Ferguson segir glapræði að reka Mourinho

Sir Alex Ferguson hefur enn fulla trú á José Mourinho og telur að hann nái að snúa gengi liðsins við. Það væri glapræði að reka hann á þessari stundu. Ferguson bendir á að Mourinho sé einn besti þjálfari sögunnar. Hann hafi unnið í Meistaradeildinni í tvígang og lið undir hans stjórn hafi unnið í deildinni í öllum þeim löndum sem hann hefur starfað í.

Porto og Leicester gætu ráðið örlögum Mourinho

Næsti leikur Chelsea er við Porto í Portúgal á miðvikudag. Tapist sá leikur er liðið að öllum líkindum úr leik í meistaradeildinni og á mánudaginn mætir Chelsea toppliðinu í deildinni, Leicester. Þessir leikir gætu ráðið miklu um framtíð Josés Mourinho. Hann skrifaði í sumar undir fjögurra ára samning við Chelsea sem gildir til loka júní 2019. Eigandinn, Roman Abramovich, lýsti yfir stuðningi við Mourinho 5. október en óvíst er hvenær þolinmæði hans er á þrotum.

 

Tengdar fréttir

Fótbolti

Taprekstur hjá Chelsea