Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Allt er þegar þrennt er

Mynd: Þjóðleikhúsið / Þjóðleikhúsið

Allt er þegar þrennt er

28.02.2020 - 17:26

Höfundar

Þitt eigið leikrit II – Tímaferðalag er tæknilega vel leyst leiksýning, segir María Kristjánsdóttir gagnrýnandi. Þótt erfitt sé að halda söguþræði sé hún skemmtileg og helstu veikleikar fyrri sýningarinnar horfnir.

María Kristjánsdóttir skrifar:

Þjóðleikhúsið hefur lagt tæknilegan metnað í sýninguna Þitt eigið leikrit II – Tímaferðalag, eftir Ævar Þór Benediktsson sem nú er sýnd í Kúlunni. Helstu tæknilegu veikleikar fyrri sýningarinnar, Þitt eigið leikrit I – Goðsaga, sem sýnd var í fyrra eru horfnir. Hermanni Karli Björnssyni sem sér um tæknilausnir hefur tekist að gera sambandið milli áhorfenda og leikara lipurlega gagnvirkt og Ævar Þór sjálfur byggir verkið upp þannig að sýningin bregst nú ákveðið og sýnilega við skipunum áhorfenda öfugt við áður. Þá er vert að dást að því hvernig með ljósum Magnúsar Arnar Sigurðarsonar og tónum Önnu Halldórsdóttur okkur áhorfendum er skrúfað inn í tímavél og hve leikmynd Högna Sigþórssonar með myndbandi Ástu Jónínu Arnardóttur víkkar og stækkar fallega heim leiksviðsins og þjónar verkinu vel. Það sama má segja um búninga og gervi.

Ævar Þór tekur að þessu sinni í efniviðnum mun alvarlegri pól í hæðina en áður. Verkið segir frá mæðgunum Önnu Hönnudóttur sem Lára Jóhanna Jónsdóttir leikur og Nönnu Önnudóttir sem Ebba Katrín Finnsdóttir leikur. Nanna liggur fyrir dauðanum á sjúkrahúsi þegar dóttir hennar fær senda frá ókunnum aðila fjarstýringu í pósti sem gerir henni kleift að ferðast og fram og aftur um tímann ásamt róbótanum, hjálparmanninum Radar, leiknum af Hilmi Jenssyni og leggja þau þá af stað með hjálp áhorfenda í leit að lækningu fyrir móðurina. Segja má að verkið sé nokkurs konar þroskasaga ungrar stúlku innrömmuð af ævintýri sem móðirin sagði henni í bernsku um sterkar konur.

Sú saga verður ekki nægilega skýr í framvindu sýningarinnar, og eins og gerist stundum er erfitt að skera úr um hvort það liggur í óþarflega flóknu handritinu eða útfærslu leikstjórans Stefáns Halls Stefánssonar og vinnu leikhópsins. Leikurinn er kraftmikill, lipur og gamansamur allt frá byrjun en þegar líða tekur á og farið er að skapa ótta og hrylling, sem einnig tekst ágætlega, geta jafnvel þaulvanir leikhúsáhorfendur ekki haldið þræði né fundið út hvað þetta nú allt hafi að gera með leitina að lækningu eða stigvaxandi þroska aðalpersónunnar. Enda verða sáralitlar breytingar á persónu Nönnu Önnudóttir í gegnum verkið. Lykilstefið í texta er reyndar að „allt muni fara eins og fara vilji“, sem mér þykir nokkuð forlagaþrungin afstaða hjá vísindamanninum Ævari.

Tengsl ævintýrisins og ferðalags Önnu eru líka nokkuð óljós þegar salurinn er farinn að stjórna ferðalaginu með sínum fjarstýringum og vafalaust langsótt eða jafnvel óskiljanleg fyrir yngri börn. Með mér í för var ellefu ára töffari og mikill aðdáandi Ævars vísindamanns. Hann fylgdist í fyrstu af athygli með framvindunni og var fljótlega búinn að leggja hald á mína fjarstýringu líka svo hlutirnir gætu gengið hratt fyrir sig. En þar sem hann er töffari, réttara sagt viðkvæmur töffari, þá fór honum að líða illa eftir hlé. Ég vil ekki láta bregða mér, sagði hann stundarhátt og þegar út var komið var hann foxillur yfir því að verið væri að hræða hann. Um nóttina dreymdi hann svo, illa. Sem segir mér að sýningin sé frekar fyrir börn, sem geta gert skýran greinarmun á blekkingum leiksviðsins og veruleikanum, sem sagt fyrir stálpuð börn, unglinga og börnin í fullorðnu fólki. Því sjálf, þó ég skildi of lítið og saknaði dýptar, skemmti ég mér vel. Tæknilausnirnar, oftast skemmtileg samtöl og leikararnir sáu fyrir því. Hilmar Jensson var snilldar róbót. Ebba Katrín sem móðirin og í nokkrum aukahlutverkum stendur undir þeim væntingum sem gerðar hafa verið til hennar eftir Atómstöðina, Íris Tanja Í. Flygenring og Snorri Engilbertsson brugðu sér af léttleika í alls kyns fígúrur. Lára Jóhanna Jónsdóttir dreif sýninguna áfram af miklum krafti en ég er orðin hundleið á að Þjóðleikhúsið skuli alltaf vera að setja hana í sama hlutverkið.

Ævar Þór er mikilvægur maður í þroskaferli íslenskra barna. Ég efast ekki um að sá góði leikhús- og eljumaður muni í þriðju útgáfu á Þínu eigin leikriti ná enn betri tökum á viðfangsefninu. Ég bíð sem sagt spennt eftir því þriðja.