Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Allt að 70 milljónir í að gera Laugardalsvöll leikhæfan

Mynd með færslu
 Mynd: Knattspyrnusamband Íslands

Allt að 70 milljónir í að gera Laugardalsvöll leikhæfan

17.01.2020 - 11:15
Knattspyrnusamband Íslands þarf að bera mikinn kostnað vegna umspilsleiks íslenska karlalandsliðsins við Rúmeníu um sæti á EM 2020 í mars. Leikurinn hefur veruleg áhrif á fjárhagsáætlun sambandsins að sögn Klöru Bjartmarz, framkvæmdastjóra sambandsins.

Ljóst var að Ísland færi í umspil um sæti á EM eftir að liðinu mistókst að fara beint á mótið í gegnum riðil sinn í undankeppninni. Tyrkland og Frakkland tryggðu sér sæti á mótinu í riðli Íslands. Íslenska liðið fer þó í umspil vegna árangurs síns í Þjóðadeildinni haustið 2018.

Áður en dregið var í umspilið var ljóst að Ísland myndi eiga heimaleik í mars vegna stöðu sinnar í A-deild Þjóðadeildarinnar en andstæðingurinn, Rúmenía, kemur úr C-deild. Það er óvenjulegt að íslenska liðið spili heimaleik á þessum tíma en reglur Evrópska knattspyrnusambandsins, UEFA, útiloka liðið frá því að spila á þeim tíma í hefðbundinni undankeppni. Ísland er ásamt Finnlandi og Færeyjum flokkað sem land þungbærra vetraraðstæðna og spila liðin þrjú því að jafnaði ekki heimaleiki í mars og nóvember.

Hafi veruleg áhrif á fjáhagsáætlun KSÍ

KSÍ hefur farið í sérstakar aðgerðir til að gera Laugardalsvöll leikhæfan fyrir leikinn við Rúmena í mars sem gætu reynst kostnaðarsamar. Greint er frá því í Fréttablaði dagsins að kostnaður vegna leiksins geti numið allt að 70 milljónum króna. Haft er eftir Klöru Bjartmarz frá stjórnarfundi sambandsins að umspilsleikirnir myndu hafa veruleg áhrif á fjárhagsáætlun KSÍ.

Stjórn KSÍ sé sammála um að staðan sé erfið og að kostnaður við heimaleikinn sé óásættanlegur. Hann geti komið niður á öðru starfi sambandsins. Þá er áhyggjum lýst yfir því að álíka kostnaður komi til á ný eftir tvö ár ef landsliðið fer í umspil fyrir HM 2022.

„Nú þurfum við nýja höll og nýjan völl“

Stjórnvöld hafa sætt gagnrýni vegna aðstöðumála landsliða Íslands í stóru boltagreinunum þremur, fótbolta, handbolta og körfubolta. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, kallaði meðal annars eftir nýrri höll og nýjum velli í ávarpi sínu á Íþróttamanni ársins í Hörpu í desember.

Hvorki Laugardalsvöllur né Laugardalshöll uppfylla alþjóðlegar kröfur og þurfa sérsambönd greinanna þriggja að fá undanþágur frá alþjóðasamböndum til að spila á þjóðarleikvangnum.

Starfshópur um Laugardal komst að þeirri niðurstöðu í apríl 2018 að margt mæli með því að Laugardalsvöllur verði endurnýjaður. Málefni nýs vallar hafa hins vegar hreyfst hægt síðan. Þá var skipaði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, starfshóp um nýja þjóðarhöll 10. janúar síðastliðinn. Hópnum er ætlað að gera tillögur um nýjan þjóðarleikvang fyrir innanhúsíþróttir.

Tengdar fréttir

Íþróttir

Undirbúningur hafinn vegna nýrrar þjóðarhallar

Íþróttir

Forseti Íslands: „Þurfum nýjan völl og nýja höll“

Körfubolti

Laugardalshöll barn síns tíma

Íþróttir

Telja uppbyggingu á Laugardalsvelli vænlega