Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Allt að 50% munur á leiguverði félagsíbúða

Mynd með færslu
 Mynd:
Allt að 50% munur er á leiguverði félagslegra leiguíbúða milli sveitarfélaga. Hæst er leigan í Mosfellsbæ, Hafnarfirði og í Seltjarnarnesbæ. Dregið hefur úr rekstrarvanda í félagslega leiguíbúðakerfinu en hlutfall milli íbúða og íbúa er afar misjafnt eftir sveitarfélögum.

Samantekt um málið er birt í Morgunblaðinu í dag. Þar kemur fram að sveitarfélög landsins eigi í heild tæplega 5.000 félagslegar íbúðir. Þær séu ætlaðar þeim sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði vegna lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra erfiðleika. Félagslegum leiguíbúðum hefur fjölgað milli ára hjá stærstu sveitarfélögum landsins. Fjöldinn er afar mismunandi, en flestar leiguíbúðir á hverja 100 íbúa árið 2012 voru í Vopnafjarðarhreppi, eða 9,02. Næstflestar eru íbúðir á íbúa á Skagaströnd, 5,91. Af stærri sveitarfélögum er þessi tíðni leiguíbúða tiltölulega hæst í Ísafjarðarbæ og Fjallabyggð, en áberandi lág í Garðabæ, Mosfellsbæ, Hveragerði, Seltjarnarnesi, Ölfusi og í Akraneskaupstað. Í Reykjavík eru þær 1,85 á hverja 100 íbúa. 

Tæplega 5.000 félagslegar íbúðir á landinu

Þeim sem þiggja sérstakar húsaleigubætur frá sveitarfélögunum sjöfaldaðist á fimm árum, á tímabilinu 2008-2013, en þær eru greiddar af um 40% sveitarfélaga á landinu og áætlað er að þær muni nema samtals 1,32 milljörðum í ár. Stærsti einstaki hópurinn sem fær þessar bætur eru örorkulífeyrisþegar. Tæplega 2.500 fengu sérstakarhúsaleigubætur á síðasta ári. Þær voru þá greiddar af 28 af 74 sveitarfélögum.