Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Allt á floti á Suðvesturlandi

19.09.2019 - 13:33
Mynd: Björgólfur Hávarðsson / RÚV
Talsverður vöxtur er í ám á Suðvesturlandi eftir miklar rigningar að undanförnu og ár og lækir hafa flætt yfir bakka sína. Jón Þór Júlíusson, framkvæmdastjóri veiðifélagsins Hreggnasa, segir að veiðimenn verði nú að beita allt öðrum aðferðum en í þurrkunum í sumar. Áfram er spáð miklum rigningum á vestanverðu landinu. Bræðurnir Svavar og Björgólfur Hávarðssynir eru við veiðar í Meðalfellsvatni og Laxá í Kjós og þykir vatnið nokkuð hafa breitt úr sér eins og myndir sýnir.

„Við hefðum viljað þetta í minni skömmtum en við stjórnum því engan veginn frekar en þurrkunum í sumar,“ segir Jón Þór.

Hafa ár og vötn flætt yfir bakka sína?

„Já og vel það. Ég held að úrkoman í gær í Borgarfirði og hérna í nágrenni við höfuðborgina hafi keyrt um þverbak. Það var allt orðið frekar blautt og grasið og náttúran hætt að taka við og þá skilar þetta sér allt beint út í árnar. Það er allt í foráttuflóðum held ég að mér sé óhætt að segja,“ segir Jón Þór.

Enn er veitt í ám víða. Jón segir að nú þurfi að beita öðrum aðferðum en í þurrkunum í sumar.

„Þá skriðum við á hnjánum með pínulitlar flugur. En nú þurfa menn að stækka flugurnar, jafnvel fara í sökklínur og beita öðru vísi kúnstum. Fiskurinn leitar upp í landið og er kannski ekki úti miðjum straumnum,“ segir Jón Þór.

Svona var Laxa í Kjós í júní:

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV

Og svona er áin í dag:

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Júlíusson - RÚV

En hvernig reynast vöðlur í þessu veðri?

„Ég held að menn séu ekki mikið að vaða í þessu vatni. Ég held að það sé nú beinlínis hættulegt. Ég held að það sé best að vera vel uppi á bakka enda er áin nánast þar. Það er best að fara varlega í þessu og vera ekkert að vaða,“ segir Jón Þór.

Mynd: Björgólfur Hávarðsson / RÚV

Bræðurnir Svavar og Björgólfur Hávarðssynir héldu til veiða í Laxá í Kjós og Meðalfellsvatni í morgun. Þeim þóttu vatnavextir heldur miklir eins og meðfylgjandi myndband sýnir. 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV