
Allsherjar snjallsímabann í frönskum skólum
Emmanuel Macron, Frakklandsforseti staðfesti þetta á Twitter, en hann talaði í kosningabaráttu sinni mjög fyrir allsherjar-snjallsímabanni í almenningsskólum.
Lög sem banna notkun slíkra síma í kennslustofum hafa verið í gildi síðan 2010 en þau ná ekki til frímínútna og skólalóðarinnar. Skömmu fyrir síðustu jól greindi menntamálaráðherrann, Jean-Michel Blanquer, frá því að til stæði að leggja blátt bann við því að börnin hefðu snjallsíma með sér í skólann yfirhöfuð, og að það gilti einnig um önnur tæki sem tengst geta netinu, svo sem spjaldtölvur og snjallúr. Undantekning er gerð fyrir tæki sem notuð eru við kennsluna og fyrir börn með sérþarfir.
Bannið gildir fyrir börn á aldrinum þriggja til fimmtán ára í leik-, grunn- og gagnfræðaskólum sem reknir eru af hinu opinbera. Lögin gera stjórnendum menntaskóla einnig kleift að banna notkun snjalltækja, en skylda þá ekki til þess.
Skoðanir á þessum nýju lögum eru skiptar, sem vonlegt er. Röksemdir Macrons og annarra formælenda bannsins eru helst þær, að snjalltækin trufli einbeitingu nemenda og skaði heilsu þeirra. Nokkur stéttarfélög kennara gagnrýna lögin og segja að þau muni bitna á gæðum kennslunnar auk þess sem afar erfitt verði að framfylgja þeim.