Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Allir þurfa tækifæri“

Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin
„Það sem kemur mér á óvart er það sem er ekki sagt,“ segir Nichole Leigh Mosty, nýkjörinn alþingismaður, um Breiðholts-skýrslu Rauða Krossins. „Ég viðurkenni að hafa orðið rosalega sár. Þarna er talað um fátæk börn og hættuna á því að þau verði enn fátæk sem fullorðin en það er ekki rætt við okkur skólastjórana, fólk sem er að vinna mikið að málefnum barnanna. Ég var mjög svekkt hversu grunnt er farið inn í það hvað er að gerast og það sem við þekkjum til,“ sagði Nichole á Morgunvaktinni.

Nichole Leigh Mosty starfar sem leikskólastjóri á leikskólanum Ösp í Breiðholti. Hún gegnir formennsku í hverfisráði Breiðholts og var á dögunum kjörin á Alþingi fyrir Bjarta framtíð. Hún lýsti á Morgunvaktinni á Rás 1 nokkrum vonbrigðum með Breiðholts-skýrsluna. „Þetta kemur þannig út að allt sé í kalda koli. Það er langt frá því.“ Hún nefnir sem dæmi að ekkert sé talað um fimm ára þróunarverkefni, sem unnið sé að í Fellahverfi og felist í því að auka félagslegan jöfnuð, ekki síst með kennslu í móðurmáli innflytjenda. Ókeypis kennsla í mörgum tungumálum sé í boði í Breiðholti um helgar. Með því að styrkja tvítyngi sé bilið brúað.

„Það er svo margt sem við erum að gera en erum kannski ekki farin að sjá árangurinn.“

Hinsvegar sé það rétt sem fram komi í skýrslunni að margir séu fátækir og eigi á hættu að festast í því. Margir fullorðnir þurfi meiri menntun og verið sé að gera margt í þeim efnum. En þörf sé á meira fjármagni í þau verkefni. „Það er engin ástæða til að gefast upp. Allir þurfa tækifæri.“ Og það hefur hún sjálf reynt hér á Íslandi. Eitt hefur tekið við af öðru. Hún fór að vinna í leikskóla til að læra íslensku en sest nú á þing sem fulltrúi í Reykjavíkurkjördæmi suður.

Nichole Leigh Mosty ólst upp í litlum bæ í Michigan, miðja vegu milli Detroit, stærstu borgar ríkisins, og Chicago í Illinois-ríki. Hún hefði aldrei getað ímyndað sér að eiga eftir að taka þátt í stjórnmálum – hvað þá á Íslandi. En á Norðurlöndum eru möguleikarnir aðrir, miðjan sterkari, og Björt framtíð höfðaði til Nichole. Bandarísk stjórnmál hafa hinsvegar valdið Nichole miklum vonbrigðum.

„Þetta er eiturspillt innan og utan.“

Hún segir að sérhagsmunaöflin ráði ferðinni við lagasetningu, miðstéttin sem hún þekkti hafi veikst mjög og bilið milli þeirra sem eiga mikið og hinna sem eiga lítið hafi breikkað. Hinsvegar sé margt skemmtilegt að gerast í Detroit eftir mörg erfið ár með gjaldþroti og hruni í bílaiðnaði. Grasrótin sé að styrkjast, smáfyrirtækjum fjölgi en uppbygging taki langan tíma. En af hverju hefur Donald Trump svona mikið fylgi? Nichole segir að hann ali á ótta fólks, ýti undir fordóma og kyndi undir hatri. Eftir að hafa heimsótt heimahagana sagði Nichole: „Ég er alveg til í að vera á lista með ykkur í Bjartri framtíð vegna þess að ég ætlaði ekki að trúa því sem ég sá heima.“ Ástandið á stjórnmálasviðinu í Bandaríkjunum hafði áhrif á Nichole. Hún sagðist með engu móti geta kosið annað þeirra Hillary Clinton eða Donald Trump. Fólk almennt kjósi ekki annað hvort þeirra í von um að viðkomandi bæti samfélagið – heldur af því að hitt myndi eyðileggja allt. Sannleikurinn sé sá að Trump hafi dregið fram það versta hjá Hillary, sem hafi þurft að verjast í stað þess að fjalla um það sem máli skipti: heilbrigðiskerfið og baráttuna gegn fátækt.

„Ég vona svo sannarlega að hún nái kjöri og sýni okkur það besta sem í henni býr. Bandaríkin þurfa á því að halda núna.“

Nichole varð fyrir vonbrigðum með að Bernie Sanders skyldi tapa fyrir Hillary Clinton. „Ég segi það með stolti: Ég kaus Bernie. Hann hefði kannski ekki gert allt sem hann lofaði, og maður klóraði sér í hausnum út af sumu, en hann hefði kannski náð að brúa bilið í samfélaginu og græða sárin. Bandaríkjunum blæðir.“

Og nýkjörni þingmaðurinn varar við því að Ísland lendi í því sama og Bandaríkin. Hér hafi bilið milli ríkra og fátækra aukist. En Ísland sé ríkt land og hér sé hægt að byggja upp gott samfélag.

 

odinnj's picture
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður