Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Allir sýknaðir í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu

27.09.2018 - 13:32
Mynd: Skjáskot / RÚV
Hæstiréttur sýknaði í dag fimm sakborninga af öllum ákæruliðum í endurupptökumáli Guðmundar- og Geirfinnsmálsins. Allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði. Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra, sem skipaði starfshóp til að fara yfir málið óskaði aðstandendum, Hæstarétti og þjóðinni allri til hamingju með þessa niðurstöðu. Ragnar Aðalsteinsson, verjandi Guðjóns Skarphéðinssonar, sagði ánægður með niðurstöðuna en hann væri óánægður með forsendurnar.

Fjölmennt var í Hæstarétti klukkan 14 í dag þegar komið var að dómsuppkvaðningu í einu umdeildasta sakamáli 20. aldarinnar - Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.

Fimm ár eru síðan starfshópur á vegum þáverandi innanríkisráðherra með Gísla Guðjónsson, réttarsálfræðing, fremstan í flokki, komst að þeirri niðurstöðu að játningar sakborninganna í málinu væru ómarktækar.

Endurupptökunefnd féllst í febrúar á síðasta ári að dómur Hæstaréttar frá árinu 1980 skyldi tekin upp er varðaði fimm sakborninga af sex. Endurupptökubeiðni Erlu Bolladóttur var hafnað. 

Dómsuppsagan tók ekki langan tíma en niðurstaðan var skýr - sýkna skyldi sakborninganna af öllum ákæruliðum. Þótt flestir hafi búist við þessari niðurstöðu, ekki síst þar sem saksóknari í málinu fór fram á sýknu, var ættingjum og verjendum létt.  Ragnar Aðalsteinsson, verjandi Guðjóns Skarphéðinssonar, sagðist ánægður með niðurstöðuna en hann væri ósáttur með forsendurnar. Hann sagði Hæstarétt hafa verið smeykan við að gagnrýna eigin stofnun og hefði misst af tækifæri til að senda skilaboð til framtíðarinnar um að svona mætti ekki gera.

Sigríður Sjöfn Sigurbjörgsdóttir, ekkja Tryggva Rúnars Leifssonar ,sagði í samtali við fréttastofu eftir dóminn að hún hefði verið með þetta mál í fanginu í öll þessi ár. 

Alnafni og barnabarn Tryggva sagðist vera þakklátur fyrir að hafa kynnst afa sínum á öðrum forsendum en þeim að hann væri fórnarlamb í þessu máli. „Þarna fékk hann lítinn afastrák sem horfði á hann eins og hann var.“ Hann sagði þetta vera nokkuð lógíska niðurstöðu hjá Hæstarétti. 

Kristín Anna, dóttir Tryggva, sagði að nú yrði farið yfir forsendur dómsins og ákveða næstu skref. Mögulega myndu þau fara saman í kirkjugarðinn. Hún sagði enga ákvörðun hafi verið tekna um hvort farið yrði fram á skaðabætur frá íslenska ríkinu. Kristín sagði við fréttastofu áður en dómurinn var kveðinn upp að dagurinn hefði mikla þýðingu fyrir fjölskylduna. „Við erum búin að bíða lengi eftir þessum degi. Það væri smá hnútur í maganum en vonandi setti dómurinn einhvers konar punkt. 

Klara Bragadóttir, eiginkona Guðjóns Skarphéðinssonar, sagði að hún hefði gjarnan viljað sjá að Hæstiréttur lýsti yfir sakleysi eiginmanns síns. Guðjón var ekki viðstaddur dómsuppkvaðninguna heldur fylgdist með henni á heimili sínu ásamt dætrum sínum. „Þetta er mikill og sögulegur dagur en við hefðum viljað að hann kæmi fyrr.“

Erla Bolladóttir, sjötti sakborningurinn í Guðmundar-og Geirfinnsmálinu, sagðist ánægði með „fyrirvaralausa sýknu.“ Hún hefur fengið Ragnar Aðalsteinsson til að kæra niðurstöðu endurupptökunefndar til Héraðsdóms Reykjavíkur en Erla var eini sakborningurinn sem fékk mál sitt ekki endurupptekið. Erla sagði í viðtali við RÚV að niðurstaða endurupptökunefndar hafi verið þannig skellur að hún hafi ekki getað treyst neinu.  

Hægt er að lesa beina textalýsingu frá deginum í Hæstarétti hér að neðan.

 
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV