Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Allir sýknaðir í Aurum Holding málinu

05.06.2014 - 10:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í morgun Jón Ásgeir Jóhannesson, Lárus Welding, Magnús Arnar Arngrímsson og Bjarna Jóhannesson, af ákæru sérstaks saksóknara í Aurum Holdings-málinu. Einn þriggja dómara skilaði séráliti og vildi dæma Jón Ásgeir, Lárus og Magnús Arnar í fangelsi.

Sérstakur saksóknari ákærði Lárus Welding, fyrrverandi forstjóra Glitnis, og Magnús Arnar Arngrímsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs bankans, fyrir að misnota umboð sitt sem stjórnendur bankans. Jón Ásgeir Jóhannesson og Bjarni Jóhannesson, fyrrverandi viðskiptastjóri hjá Glitni, voru ákærðir fyrir hlutdeild í umboðssvikunum.

Málið snýst um 6 milljarða króna lán Glitnis til félagsins FS38. Lánið var samkvæmt ákæru notað til að fjármagna að fullu kaup FS 38 á hlut Fons í skartgripakeðjunni Aurum Holdings. Jón Ásgeir Jóhannesson er í ákæru sakaður um að hafa beitt stjórnendur Glitnis fortölum og þrýstingi um að samþykkja lánið. Milljarður af láninu fór til Jóns Ásgeirs sjálfs, samkvæmt ákæru. Fjórmenningarnir neituðu allir sök.

Í niðurstöðu Héraðsdóms er farið nákvæmlega yfir ýmis tæknileg atriði á borð við verðmæti Aurum Holdings á þeim tíma sem lánið var veitt, og birtar töflur og útreikningar. Dómurinn segir að lokum að með því að samþykkja lánið til Aurum Holdings hafi Lárus og Magnús ekki brotið þær reglur bankans sem málatilbúnaður sérstaks saksóknara sé byggður á. Þeir hafi því ekki misnotað aðstöðu sína. 

Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs, segir að rannsókn málsins hafi ekki verið fullnægjandi. „Það komu fram gögn sem eru samtímagögn sem maður spyr sig sjálfan af hverju komu ekki fram við sjálfa rannsóknina sem einfaldlega sýndu fram á það að forsendur ákærunnar eru rangar,“ segir Gestur.

Arngrímur Ísberg, einn af þremur dómurum í málinu, skilaði séráliti og telur að sakfella eigi Lárus, Magnús og Jón Ásgeir. Lánið hafi meðal annars verið algerlega án fullnægjandi trygginga og þar af leiðandi andstætt reglum bankans. Þá hafi Jón Ásgeir haft veruleg afskipti af lánveitingunni, afskipti sem hafi verið langt umfram það sem eðlilegt geti talist af manni sem engri stöðu gegndi hjá bankanum en fór með stóran eignarhlut í honum. Ekki sé hægt að líta á afskipti hans í öðru ljósi en því að honum hafi verið ætlaður hluti af láninu. Arngrímur telur að dæma eigi Lárus, Magnús og Jón Ásgeir til fangelsisrefsingar.

Allir dómararnir eru aftur á móti sammála um að sýkna Bjarna Jóhannesson viðskiptastjóra. Hann hafi samkvæmt ákærunni unnið þau störf sem fyrir hann var lagt. Ósannað sé að hann hafi með liðsinni í orði eða verki, fortölum, hvatningu eða á annan hátt stuðlað að því að lánið yrði veitt.
Málsvarnarlaun verjendanna greiðast úr ríkissjóði, rúmlega 40 milljónir króna. Ríkissaksóknari hefur fjórar vikur til að ákveða hvort málinu verður áfrýjað til Hæstaréttar.