Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Allir hafi sömu tækifærin og sama rétt“

04.09.2016 - 20:10
Það er mikilvægt að allir hafi sömu tækifæri og allir hafi sama rétt, sögðu skipuleggjendur samstöðufundar um málefni eldri borgara og öryrkja sem haldinn var á Austurvelli í dag.  

Ferðabæklingarnir svokölluðu, sem berjast fyrir bættum kjörum og réttindum heldri borgara og öryrkja, boðuðu í dag til samstöðufundar á Austurvelli sem auglýstur var á Facebook. Tafir urðu á fundinum vegna tæknivandamála og á meðan fækkaði í hópi fundargesta. Skipuleggjendur voru engu að síður glaðir með daginn.

„Við viljum að allir standi og sitji saman,“ segir Hjördís Heiða Ásmundsdóttir, ein skipuleggjenda. „Við viljum að við áttum okkur á því að við erum samfélag, við eigum að vinna saman og hjálpast að og sjá til þess að allir hafi sömu tækifæri og allir hafi sama rétt.“

Hjördís segir sorglegt að fólk sem komið er á eftirlaunaaldur fái sömu til framfærslu sömu upphæð og unglingar fái í laun í unglingavinnunni. Hún telur að flestir Íslendinga geti tekið undir það.  „Svo hækka launin hjá unglingunum en ennþá sitja eldri borgarar og öryrkjar eftir. Þetta er óréttlæti, við viljum bara jafnrétti.“

Maríanna Vilbergs Hafsteinsdóttir segir alla geta lagt sitt af mörkum. „Við getum nefnilega öll gert eitthvað og ef þú gerir það sem þú getur og ég geri það sem ég geri þá fléttast þetta allt saman saman, þannig endilega verið með. Góð lína til að muna; enginn getur allt, allir geta eitthvað. Saman getum við allt.“

 

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV