Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Allir endurráðnir í Hrísey

22.05.2014 - 15:58
Mynd með færslu
 Mynd:
Fyrirtækið K&G í Sandgerði hefur keypt allar eignir og kvóta útverðarfélagsins Hvamms í Hrísey. Allir starfsmenn verða endurráðnir.

Í febrúar síðastliðnum var öllum starfsmönnum útgerðarfélagsins Hvamms í Hrísey sagt upp störfum. Þetta var reiðarslag fyrir samfélagið enda Hvammur langstærsti vinnustaðurinn í eynni. Uppsagnirnar áttu að taka gildi um næstu mánaðamót en nú er ljóst að til þess kemur ekki. K&G í Sandgerði hefur keypt útgerðarfélagið Hvamm og allir starfsmennirnir 15 verða endurráðnir. Þetta var tilkynnt á starfsmannafundi í Hrísey í morgun. Allar eignir Hvamms, svo sem frystihúsið, kvóti og línubáturinn Siggi Gísla fylgja með í kaupunum en eigendur Hvamms ætla að halda eftir harðfiskvinnslunni.

Eftir að tilkynnt var um fyrirhugaða lokun Hvamms bættist Hrísey í hóp þeirra byggðarlaga sem Byggðastofnun skilgreinir sem byggðir í bráðum vanda og Hríseyingum gefst nú kostur á að sækja um að fá að nýta viðbótaraflaheimildir sem Byggðastofnun hefur til umráða á næsta fiskveiðiári. Það gæti styrkt rekstur K&G í eynni. 

K&G rekur útgerð og fiskvinnslu í Sandgerði og þar starfa um 30 manns. Eigendurnir eru væntanlegir norður eftir helgi til að ræða við Eyjarskeggja.