Allar líkur á að fólkið hafi orðið úti á Sólheimasandi

16.01.2020 - 16:26
Mynd: Wiki Commons / Wiki Commons
Allar líkur eru á því að fólkið sem fannst látið á Sólheimasandi fyrr í dag hafi orðið úti, samkvæmt upplýsingum sem fréttastofa hefur frá lögreglu. Ekkert hafi komið fram sem bendi til saknæms athæfis.

Lík konunnar fannst rétt fyrir hádegi í dag. Það var skammt frá göngustíg að flugvélarflaki þar og var lögreglu gert viðvart. Eftir að lögreglumenn voru komnir á staðinn var kölluð út björgunarsveit til að leita frekar.

Fá skýrari mynd með krufningu

Um klukkan tvö fannst svo lík karlmanns skammt frá þeim stað sem konan lá. Í tilkynningu frá lögreglu segir að dánarorsök verði ekki ljós fyrr en að lokinni krufningu á líkunum.

Visbendingar eru um að fólkið hafi verið par og ferðast saman. Bíll sem parið var á er á bílastæði við Sólheimasand og vitað að hann fór um Hvolsvöll á austurleið klukkan fimm minútur í þrjú á mánudaginn.

Vonskuveður á Suðurlandi

Aftakaveður var um allt land á mánudaginn og appelsínugul viðvörun. Norðaustanstormur gekk yfir landið með snörpum vindhviðum yfir 40 metrum á sekúndu. Þessu fylgdi snjókoma og skafrenningur með lélegu skyggni.

Magnús Geir Eyjólfsson fréttamaður ræddi við Odd Árnason yfirlögregluþjón. Hægt er að horfa á viðtalið í spilaranum fyrir ofan. 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Magnús Geir Eyjólfsson