Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Álíka mikið flutt út til Kína og Færeyja

16.04.2013 - 20:43
Mynd með færslu
 Mynd:
Útflutningur frá Íslandi til Kína er litlu meiri en til Færeyja en töluvert er flutt inn af vörum frá Kína. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins býst við að fríverslunarsamningurinn við landið veiti aukin tækifæri til útflutnings, einkum á sjávarafurðum.

Á síðasta ári fluttu Íslendingar inn vörur frá Kína fyrir 42,6 milljarða króna. Aðeins þrjár þjóðir seldu meira af vörum til Íslands; Noregur, Þýskaland og Bandaríkin. Næst á eftir Kína koma Brasilía, Holland og Danmörk, en innflutningur þaðan er níu milljörðum minni en frá Kína. Staðan er önnur þegar útflutningurinn er skoðaður. Þar eru Kínverjar í átjánda sæti, en þeir keyptu vörur af Íslendingum fyrir 7,6 milljarða. Pólverjar eru þar fyrir ofan en Færeyingar rétt fyrir neðan. Hollendingar keyptu langmest af vörum frá Íslandi, fyrir tæplega 190 milljarða en Þjóðverjar koma næstir með 81 milljarð. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins hefur trú á að fríverslunarsamningurinn við Kína geti aukið útflutning þangað.
„Vonandi sjáum við bara aukin tækifæri, þarna er að opnast stórt og nýtt markaðssvæði og það skapar ný tækifæri,‟ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdarstjóri Samtaka atvinnulífsins.

Þorsteinn telur til dæmis mikla möguleika í sjávarútveginum. Erfitt sé að meta áhrif þessa samnings en almennt hafi fríverslunarsamningar reynst vel. „Við höfum orðið nokkuð góða reynslu af því allt frá því við urðum aðilar að EFTA á sínum tíma, og EES samningurinn hefur reynst vel líka. Þetta hefur opnað mjög á útflutning okkar og eflt hann og styrkt allar götur síðan og ég sé enga ástæðu til að efast um að það verði í þessu tilviki líka,‟ segir Þorsteinn.