„Algjörlega máttlaus viðbrögð“

05.06.2019 - 10:53
Mynd með færslu
 Mynd:
Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir það skjóta skökku við að Samgöngustofa ætli ekki að bregðast harðar við í máli bílaleigunnar Procar, sem hefur viðurkennt svindl með kílómetramæla. „Mér finnast þetta algjörlega máttlaus viðbrögð,“ segir Jóhannes Þór. 

Fram kom í kvöldfréttum RÚV í gær að Samgöngustofa ætlar ekki að aðhafast frekar í málinu að svo stöddu. Tillögur Procar að úrbótum voru taldar fullnægjandi. „Okkur þykir þetta rýra traust á eftirlitsstofnuninni og ekki síður á markaðnum í heild og búa til freistnivanda. Ef að fyrir þessu liggur einhvers konar rökstuðningur varðandi það að lagaumhverfið sé ekki nægilega sterkt þá þarf að fara strax í að skoða það,“ segir Jóhannes Þór jafnframt. 

Ekki nóg að slá á puttana á fólki

Hann segir jafnframt að hann vilji sjá rökstuðning Samgöngustofu við þessari ákvörðun. „Við teljum að það sé ekki nóg að slá á puttana á fólki og segja: Gerðu þetta aldrei aftur - ef menn bjóða upp á einhver svona eftir-á-úrræði. Það þarf einfaldlega að taka skýrar á málum.“

Lögfræðingur sem fer með mál Procar segir að fyrirtækið ætli að bjóða þeim bætur sem voru blekktir, ásamt því að gefa fólki aksturssögu seldra bifreiða og taka upp nýjar verklagsreglur til að tryggja að lögum sé fylgt. „Það er í sjálfu sér gott. Það er hins vegar óbætt það tjón sem fyrirtækið hefur valdið öðrum bílaleigufyrirtækjum á markaðnum með því að skekkja samkeppnisstöðuna svona,“ segir Jóhannes.

Finnst skrítið að niðurstaðan birtist fyrst í fjölmiðlum

Þá gagnrýnir Jóhannes Þór að samtökin hafi heyrt af niðurstöðu Samgöngustofu fyrst í fjölmiðlum. „Ég verð að hafa þann fyrirvara á að við höfum ekki séð neinn annan rökstuðning nema þann sem birtist í fréttum RÚV í gærkvöldi. Við höfum ítrekað þrýst á það hjá Samtökum ferðaþjónustunnar að fá niðurstöðu í þessu máli. Þannig okkur finnst ekki síður skrítið að vera að frétta að þessu í fjölmiðlum en ekki hjá stofnuninni sjálfri.“ Niðurstaðan var tilkynnt Procar í byrjun maí, samkvæmt lögmanni fyrirtækisins.  

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi