Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Álftamamma og ungar hennar fengu lögregluvörð

29.09.2019 - 10:17
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Lögreglumenn á Suðurnesjum komu álft og þremur ungum hennar til aðstoðar á Reykjanesbraut í vikunni. Álftirnar spásseruðu þá um Reykjanesbraut. Vegfarandi einn hafði samband við lögreglu. Sá óttaðist að ferðalag álftanna kynni að valda slysum á fólki eða fuglum.

Lögreglumenn komu því á vettvang og stöðvuðu umferð svo álftamamma og ungar hennar kæmust yfir veginn. Allt gekk að óskum að því er fram kemur í dagbók Lögreglunnar á Suðurnesjum þar sem atvikinu er lýst.

Tvær landnámshænur hurfu frá eiganda sínum í vikunni. Sá hafði samband við lögreglu sem hafði ekki rekist á hænur í óskilum. Ekki er ljóst hvort þær skiluðu sér heim að lokum.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV