Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Aldrei þægilegt að fá skjálfta yfir 3 í Kötlu

19.04.2017 - 13:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tveir skjálftar yfir þrír að stærð urðu í Kötluöskjunni um tíuleytið í morgun. Fyrri skjálftinn varð klukka 09:43 en hinn tæpri klukkustund síðar. Lítil hrina fylgdi í kjölfarið. Kristín Jónsdóttir, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir aldrei þægilegt þegar skjálftar um og yfir þrjá mælast í Kötlu. Vel sé fylgst með eldstöðinni en skjálftahrinan virðist hafa dottið niður.

Kristín segir að skjálftarnir hafi verið í miðri öskjunni og þeir tengist því ekki jarðhitasvæðinu. Hún segir að Katla hafi verið virkari síðan síðastliðið sumar - mikil virkni hafi verið í haust en síðan hafi dregið úr henni í byrjun ársins. 

Í febrúar var nokkur virkni í Kötlu en þá voru snörpustu skjálftarnir um 1,8 að stærð. Í janúar varð hins vegar skjálfti í miðri öskjunni af stærðinni 4,3 og þá fann starfsfólk Byggðasafnsins í Skógum undir Eyjafjöllum greinilega fyrir honum. 

Vísindaráð almannavarna sendi þá frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að telja yrði meiri líkur á eldgosi í Kötlu nú en venjulega. 

Gos í Kötlu hefur ekki náð upp á yfirborð jökulsins frá árinu 1918. Fram kemur á eldfjallavefsjánni að 45% af eldgosum í Kötlum séu minniháttar. 25% eldgosa séu miðlungsstór, 25% séu stór gos og aðeins 5% af gosum séu mjög stór eða hamfaragos.