Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Aldrei sorrí

Mynd: Saga Sigurðardóttir / svikaskald

Aldrei sorrí

14.06.2018 - 10:40

Höfundar

Svikaskáldin eru orðin leið á að biðjast afsökunar, þær taka pláss og biðja ekki um leyfi til að gefa út bækur. Ég er fagnaðarsöngur nefnist ný ljóðabók sem lítur dagsins ljós á kvenréttindadaginn.

Svikaskáldin vinna bækurnar í einum rykk, ef svo má segja. Efnið verður til í útlegðinni og þar gildir að vinna hratt. „Það er svolítið til höfuðs þessari fullkomnunaráráttu,“ segir Sunna Dís Másdóttir, en einkunnarorð Svikaskáldanna er „Aldrei sorrí“, því konur eiga ekki að þurfa að biðjast afsökunar á sjálfum sér. Fyrri bókin var unnin yfir helgi í sumarbústað á Íslandi en sú nýja í rithöfundabústað í Marseille og þar gáfu þær sér fjóra daga til verksins.  

„Þetta snýst um að vera saman. Við leggjum ekki upp með fastmótað þema, við deilum hugmyndum,“ segir Sunna Dís. „Flest ljóðin koma til mín eftir kaffipásur þar sem við höfum setið og spjallað og þar kviknar á einhverjum perum.“

Fríða Ísberg segir það vera kost að vinna með öðrum skáldum því ritstörf séu oft einmanaleg iðja. „Það er dýrmætt að fá að skrifa saman, í hringiðu. Við erum kannski með einhverja hugmynd sem við byrjum með. Skrifum í klukkutíma, komum svo saman og lesum það sem við erum nýbúnar að skrifa – og það krefst trausts. Því það er yfirleitt alltaf rusl til að byrja með.“

Sunna Dís hlær en vill ekki alveg taka undir það. „En það er vissulega mjög hrátt,“ bætir hún við.

Gefa skít í fullkomnunaráráttuna

Fríða segir þetta ferli hluta af því að gefa skít í fullkomnunaráráttuna. „Við höfum allar þurft að glíma við fullkomnunaráráttuna og hún hefur aftrað okkur – eins og mörgum konum – að gefa út og vera sýnilegar.“

„Það var alltaf markmiðið að gefa út bók, hrátt og hratt, ekki vera fullkomin, ekki fá leyfi frá neinum. Bara gera þetta,“ segir Þóra Hjörleifsdóttir en sjálf segist hún hafa orðið dálítið hissa á skáldagyðjunni í sjálfri sér. „Ég hef aldrei upplifað mig sem ljóðskáld. Ég hélt ég væri að fara með sem einhvers konar „motivational speaker“, af því ég hef einhvern tímann unnið í Hjallastefnunni.“ 

Hafa þurft að glíma við svikarann

„Ég hef þurft að mæta svikaranum í sjálfri mér til að geta komið fram sem ljóðskáld,“ segir Þóra, en með svikaranum á hún við það sem á ensku kallast „imposter syndrome“ eða svikaraheilkenni og margar konur glíma við á ýmsum vígvöllum. En eftir fyrra útgáfuferlið var sjálfstraustið meira. „Í Frakklandsferðinni var aldrei neinn efi. Við vorum bara mættar og vorum bara „jæja, hér erum við og við höfum fjóra daga og nú kemur ný bók og þarna er rósavínið…““

Mynd með færslu
Bókarkápuna prýðir mynd eftir Elínu Elísabetu Einarsdóttur

Tröllskessan er án kvenleika

Náin samvinna hlýtur að gefa af sér sterkan streng milli ljóðanna, þau eru ekki merkt höfundi nema í efnisyfirliti og þjóðsögur, íslensk náttúra og konan er augljós tenging.

„Við vorum mikið að leika okkur með þjóðsagnahefðina, skessurnar þar eru alltaf svo vondar. En svo ef maður hugsa um þær, þá eru þær bara einhverjar geggjaðar týpur sem búa bara sjálfar og eru sterkar og fólk er bara hrætt við þær,“ segir Þóra.

„Oft eru þær líka dálítið vergjarnar, eru að sækja sér karla svona upp í helli, sem er náttúrlega alveg agalegt,“ bætir Sunna við.

„Já, við fórum að velta fyrir okkur hvers vegna tröllskessan er án alls kvenleika. Svo er líka búið að steingera hana. Hvaðan kemur það sjónarhorn? Samfélagið ræður ekki við þessa konu,“ segir Fríða.

Huldukonan er fögur en skessan nælir í karlana

Huldukonan, er líka hluti af þessari þjóðsagnahefð, en hún er næstum því andstæða skessunnar.

„Það er svo gaman að spá í þessar tvær týpur saman, skessuna og svo huldukonuna sem virðist alltaf vera ofboðslega fögur og virðist svona kvenlegt ídeal eins og það er í dag. Falleg yfirlitum og grönn og tignarleg,“ segir Sunna. „En það er skessan sem nælir í karlana.“

Konur í listasögunni hafa stundum verið nefndar huldukonur, því þó verk þeirra séu jafnvel þekkt þá er ekki sjálfgefið að þær séu það. Eins er áhugavert í því samhengi að velta fyrir sér tröllskessunum sem héldu nöfnum sínum leyndum og ef fólk gat giskað á nafnið þá létu þær sig jafnan hverfa, eins og í sögunni um Gilitrutt.

„Það eru til mjög nærtæk dæmi um nafnlausu konuna. Ég þreytist ekki á að spá í bókaútgáfu og dulnefnum í því samhengi,“ segir Sunna og segist hafa byggt á sögunni um Gilitrutt í öðru ljóði, „þetta með að dyljast og þekkja jafnvel ekki sitt eigið nafn.”

En ljóðin í bókinni eru ekki merkt höfundi nema í efnisyfirliti og það er með ráðum gert. „Við viljum ekki að fólk sem þekkir bara einn höfund fletti yfir hin ljóðin í bókinni. Við viljum að þetta sé ein heild. Engu að síður viljum við að fólk geti flett aftast og séð hver á hvaða ljóð.“

„Að konur fái kredit! Það er mikilvægt,“ bætir Þóra við.

Þeir væru algjör snillingar

En hafa þær leitt hugann að því hvernig hlutunum væri háttað hefðu þetta verið sex strákar í sumarbústað? Það slær þögn á hópinn. „Þeir væru náttúrlega bara algjörir fokking snillingar, segir Þóra loks. „Börn fá svo ólíkt uppeldi. Okkur er bara rétt strokleður þegar við erum sex ára og við erum bara endalaust að hamast við að þurrka út öll ummerki um að við höfum einhvers staðar verið …“

Sunna grípur orðið: „… ófullkomnar.“

„Já eða bara lifandi.“

Ég er fagnaðarsöngur kemur út á Kvenréttindadaginn, 19. júní og verður útgáfunni fagnað í Mengi. Hægt er að lesa meira um viðburðinn á Facebook, en bókina má panta á svikaskald.com