Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Aldrei fleiri úrkomudagar í Reykjavík

03.01.2019 - 09:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Úrkomudagar í Reykjavík á nýliðnu ári voru óvenjumargir, 261 og hafa aldrei verið fleiri. Sólskinsstundir ársins reyndust vera 1.163 í höfuðborginni á árinu, rúmlega 100 færri en í meðalári og þær fæstu á einu ári síðan 1992. Alhvítir dagar voru 38 á árinu í Reykjavík og hafa ekki verið jafnfáir frá 2010. Þetta kemur fram í samantekt Trausta Jónssonar veðurfræðings á vefsíðu hans.

Úrkoma í Reykjavík mældist 1059,2 mm og segir Trausti að ársúrkoma hafi aðeins sjö sinnum mælst meiri frá upphafi samfelldra mælinga 1921, síðast 2007. Þetta sé tæpum þriðjungi umfram meðallag. 

183 daga mældist úrkoma einn millímetri eða meiri og hafa aðeins tvisvar verið fleiri, 1953 og 1921, segir Trausti. Meðalhiti í Reykjavík var 5,1 stig og segir Trausti að árið sé eitt þeirra 30 hlýjustu frá upphafi mælinga.

Hlýtt á Akureyri

Meðalhiti á Akureyri var 4,6 stig, það fjórtánda hlýjasta frá upphafi mælinga, segir Trausti í sinni samantekt. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 1016 og er það í tæpu meðallagi. 

Úrkoma ársins í bænum mældist 687,2 mm eða um 40 prósentum umfram meðallag. Trausti segir að hún hafi aðeins tvisvar mælst meiri á einu ári, 2014 og 1989. Úrkomudagar reyndust einnig óvenjumargir á Akureyri, 209, og hafi aðeins þrisvar verið fleiri á einu ári, flestir 224 árið 2014. Alhvítu dagarnir reyndust vera 98, um 20 færri en í meðalári.

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV