Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Aldrei fleiri sótt um hjá VIRK

04.01.2019 - 12:15
Mynd með færslu
 Mynd: - - - Creative Commons Creative Common
Áttatíu prósent þeirra sem hafa útskrifast úr endurhæfingu hjá VIRK eru á vinnumarkaði eða í námi. Aldrei hafa fleiri sótt um starfsendurhæfingu hjá VIRK en í fyrra. 

Um tvö þúsund manns hófu starfsendurhæfingu hjá VIRK í fyrra. Það er aukning um sex prósent frá árinu á undan. Þá hafa aldrei jafn margir lokið starfsendurhæfingu hjá VIRK og í fyrra.

Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK, segir þessa auknu aðsókn áhyggjuefni. „Við höfum áhyggjur af þessari aukningu. Þetta hefur haldið áfram núna og við áttum ekki von á því. Það sem við höfum mestar áhyggjur af er aukinn fjöldi ungs fólks sem leitar til okkar. En svo getur verið önnur skýring. Hún er sú að fólk er orðið meira meðvitað um okkar þjónustu og fagaðilar vísa til okkar í meira mæli en áður,“ segir Vigdís.

Starfsendurhæfingarsjóðurinn var settur á fót í kjölfar hrunsins. Vigdís segir að vísbendingar séu um að enn sé fólk að glíma við eftirköst hrunsins, en aðrir þættir komi einnig til. 

„Það er engin einhlít skýring. Ekkert eitt sem ég get bent á. Ég held bara að við verðum að skoða þetta í víðu samhengi. En svo þurfum við að velta fyrir okkur hvert við erum komin, hraðinn í samfélaginu, notkun á samfélagsmiðlum, snjallsímum og svo margt fleira sem við verðum að skoða í þessu samhengi. Hvað veldur því að ungt fólk missir heilsuna í meira mæli,“ segir Vigdís.  

Alls hafa hátt í fimmtán þúsund manns leitað til VIRK. Þar af hafa tæplega níu þúsund útskrifast. 

Vigdís segir að áttatíu prósent þeirra sem koma til VIRK fari í einhvers konar virkni á eftir. „Annaðhvort á vinnumarkaðinn, í atvinnuleit eða í nám,“ segir hún. 

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV