Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Aldrei fleiri hlynntir sölu á bjór í búðum

04.06.2019 - 16:16
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Fleiri Íslendingar eru hlynntir sölu á bjór og léttvíni í matvöruverslunum en andvígir. 44,5 prósent eru hlynntir sölu á bjór í matvöruverslunum en 40,9 prósent andvígir.

Þetta eru niðurstöður könnunar Maskínu. Aldrei fyrr hafa jafn margir verið hlynntir sölu á bjór síðan mælingar Maskínu hófust árið 2014, en 6,3 prósent aukning varð milli ára.

44,2 prósent eru hlynntir sölu á léttvíni í matvöruverslunum en 41,9 prósent eru á móti. Ekki er sama viðhorf til sölu á sterku áfengi og 67,4 prósent voru andvígir en 16,8 prósent hlynntir.

Karlar eru jákvæðari en konur en munurinn á viðhorfi kynjanna er mestur hvað varðar sölu á sterku víni. Þá eru yngri svarendur talsvert jákvæðari í garð sölu áfengis í matvöruverslunum og eykst andstaðan eftir því sem svarendur eru eldri.

Svarendur sem voru hvað jákvæðastir sögðust myndu helst kjósa Sjálfstæðisflokk, Viðreisn eða Pírata, ef gengið yrði til Alþingiskosninga í dag. Þeir sem hygðust myndu kjósa Framsóknarflokkinn voru helst mótfallnir.

824 svarendur voru í úrtakinu og voru dregnir með tilviljun úr Þjóðskrá. Samkvæmt Þjóðskrá endurspeglar úrtakið þjóðina prýðilega m.t.t. aldurs, búsetu, kyns o.s.frv. Könnunin var gerð dagana 14. til 27. maí 2019.

 

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn