Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Aldrei færri flóttamenn til Bandaríkjanna

epa07968444 US President Donald J. Trump speaks to reporters before departing the White House en route to New York, Washington, DC, USA, 02 November 2019.  EPA-EFE/ERIN SCOTT / POOL
 Mynd: EPA-EFE - Polaris POOL
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, ætlar að fækka mjög í hópi flóttamanna, sem veitt verður hæli í Bandaríkjunum á þessu fjárhagsári. Þeir verða aðeins 18.000, færri en nokkru sinni síðan formleg flóttamannaáætlun var innleidd í Bandaríkjunum árið 1980. Á síðasta fjárhagsári voru þeir 30.000.

Í tilkynningu frá Hvíta húsinu, sem undirrituð er af forsetanum, segir að mannúðarástæður og þjóðarhagur liggi til grundvallar þessari ákvörðun. Þetta þýðir að Bandaríkin munu aðeins taka á móti 4.000 flóttamönnum frá Írak og 1.500 frá El Salvador, Gvatemala eða Hondúras. Hinir 12.500 koma úr ýmsum áttum.

„Kjarninn í utanríkisstefnu Trump-stjórnarinnar er skuldbindingin til að taka ákvarðanir sem byggðar eru á raunveruleikanum, en ekki óskum, og að ná besta mögulega árangri, út frá staðreyndum,“ sagði Mike Pompeo um þetta í yfirlýsingu í gær, laugardag. „Með því að leysa vandamálin sem hrekja flóttafólkið frá heimkynnum sínum hjálpum við mun fleiri mun hraðar en með því að finna þeim heimili í Bandaríkjunum,“ skrifar Pompeo.

Úr 85.000 í 18.000 á fjórum árum

2016, síðasta ár Baracks Obama í embætti, tóku Bandaríkin á móti 85.000 flóttamönnum víðs vegar að úr heiminum. 2017, fyrsta embættisár Donalds Trumps, var þeim fækkað í 53.000 og svo 30.000 í fyrra, eins og áður segir. Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna hefur þegar sent frá sér yfirlýsingu þar sem tilkynning Bandaríkjaforseta er sögð áhyggjuefni. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV