Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Aldrei færri börn fæðst að meðaltali á hverja konu

19.12.2019 - 10:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Í fyrra fæddust 4.228 börn hér landi sem er vel undir meðaltali síðustu sex áratuga. Konur eignast nú sitt fyrsta barn síðar á ævinni og meðalaldur mæðra hefur hækkað jafnt og þétt frá því um miðjan níunda áratuginn. Ekki hafa fæðst færri börn á hverja konu síðan mælingar hófust og fæðingar mælast undir því sem miðað er við að þurfi til þess að viðhalda mannfjölda til lengri tíma. Þá hefur ungbarnadauði hvergi í Evrópu verið jafn fátíður og hér.

Meðalaldur mæðra úr 22 árum í 28 ár

Meðalaldur nýrra mæðra var 28,2 ár í fyrra. Fram yfir 1980 var meðalaldur mæðra hins vegar undir 22 árum. Þetta kemur fram í Hagtíðindum Hagstofunnar um mannfjöldaþróun ársins 2018. 

Hver kona eignaðist um 1,7 börn að meðaltali á ævinni miðað við mælingar í fyrra. Síðan mælingar hófust 1853 hefur þessi tala aldrei verið lægri. Árið 1960 gat hver kona hins vegar vænst þess að eignast rúmlega fjögur börn á ævi sinni.

Miðað er við að meðaltalið þurfi að vera um tvö börn á ævi hverrar konu til þess að hægt sé að viðhalda mannfjölda til lengri tíma litið. Undanfarin tuttugu ár hefur meðaltalið hér á landi verið þar um bil. 

Meðalævilengd hefur vaxið jafnt og þétt

Landsmönnum fjölgaði um 2,5 prósent á milli ára, eða um 8.541. Í upphafi árs voru íbúar landsins 356.991 talsins, 182.837 karlar og 174.154. Körlum fjölgaði um 2,9 prósent árið 2018 og konum um 1,9 prósent. Í fyrra létust 2.254 sem búsettir voru hér á landi. Dánartíðni var 6,4 látnir á hverja 1.000 íbúa.

Á milli 2008 og 2007, tíu ára tímabili, var ungbarnadauði á Íslandi að meðaltali 1,8 af hverjum þúsund lifandi fæddum. Hvergi í Evrópu var ungbarnadauði jafn fátíður og hér, segir í Hagtíðindum. 

Full length of senior couple jumping against sky and having fun
 Mynd: www.Be-Younger.com - flickr.com

Meðalævilengd hefur vaxið jafnt og þétt undanfarna öld. Lífslíkur íslenskra karla hafa batnað á undanförnum árum og þeir bætt tæplega þremur árum við meðalævilengd sína frá árinu 2000. Árið 2017 var meðalævilengd íslenskra karla 80,6 ár, sem er næst lengsta meðalævilengd Evrópu á eftir Sviss. Þar er ævilengd karla 80,7 ár.

Lífslíkur íslenskra kvenna voru lengi vel hæstar í heiminum. Nú hafa þær dregist nokkuð aftur úr meðal Evrópuþjóða og eru í sjöunda sæti. Í Hagtíðindum er ástæða þess sögð vera að fólk lifir sífellt lengur og það hefur tekið hröðum breytingum meðal nokkurra Evrópuþjóða. Meðalævilengd íslenskra kvenna var 83,9 ár árið 2017. Meðalævilengd spænskra, franskra og svissneskra kvenna var lengst innan Evrópu, eða rúm 85 ár. 

Kjarnafjölskyldum fjölgaði í fyrra

Í upphafi árs voru 83.358 kjarnafjölskyldur á landinu og hafði þeim þá fjölgað um 1.256 frá árinu áður. Kjarnafjölskyldur teljast vera hjón eða sambúðarfólk með eða án barna undir 18 ára, eða einstæðir feður eða mæður með börn á framfæri undir 18 ára aldri. 

Þá fjölgaði barnafjölskyldum um 447 og barnlausum hjónaböndum og sambúðum um 877. Einhleypum fjölgaði um 5.621 frá því ári áður.