Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Aldrei eins margar holur á svo litlu svæði

Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Á fyrirhuguðu vegsvæði Hvalárvirkjunar á Ófeigsfjarðarheiði var skógur fyrir milljónum ára. Um það vitna trjáholur í bergi sem vísindamenn Náttúrufræðistofnunar fundu í síðustu viku. Aldrei hafa eins margar fundist á jafnlitlu svæði, segir jarðfræðingur. Verið er að meta hvaða áhrif þetta hefur á framkvæmdir. 

Rannsaka þyrfti frekar Ófeigsfjarðarheiði eftir að steingervingar eða trjáholur fundust á fyrirhuguðu vegsvæði Hvalárvirkjunar. Tveir vísindamenn Náttúrufræðistofnunar skoðuðu svæðið í tvo daga í síðustu viku eftir að ábendingar bárust um steingervinga og skiluðu skýrslu sem birt var í gær. 

„Og við lögðum náttúrulega áherslu á svæðið þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. En svo fórum við aðeins út fyrir sitthvorum megin sérstaklega eftir að það kom í ljós að það var svo mikið af trjáholum,“  segir Lovísa Ásbjörnsdóttir jarðfræðingur sem rannsakaði svæðið ásamt Sigríði Maríu Aðalsteinsdóttur.  

Hvað var það sem sést þarna svo greinilega?

„Berglögin þarna við Ófeigsfjörð eru sögð vera 10 til 13 milljón ára gömul. Og á þeim tíma vitum við að landið var skógi vaxið og það uxu bara hérna risafurur og laufskógar og annað. Þannig að það eru stórir trjábolir sem hafa fundist í þessu gamla bergi. Málið er það að við erum líka með eldfjöll og eldvirkni þannig að þegar hraun rennur yfir skóglendi að þá lokast trjábolurinn undir hrauninu. Og síðan kolast hann með tímanum og skilur eftir holu og það eru þessar trjáholur sem við vorum að skoða.“

Hafið þið áður hjá Náttúrufræðistofnun fundið svona mikið af trjáholum, steingervingum?

„Nei, ekki á svona litlu svæði.“

Svæðið sem skoðað var er tæpur ferkílómetri. Lovísa segist vilja skoða stærra svæði og fara ofar upp á Ófeigsfjarðarheiði því best varðveittu trjáholurnar virðist vera á efri hluta svæðisins. Steingerviningar eru verndaðir samkvæmt náttúruverndarlögum. Umhverfisstofnun svarar í næstu viku hvaða áhrif þessar niðurstöður Náttúrufræðistofnunar hafa á fyrirhugaðar framkvæmdir í tengslum við Hvalárvirkjun. 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV