Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Aldraðir fjötraðir á Sólvangi

Mynd með færslu
 Mynd:
Niðurskurður á hjúkrunarheimilinu Sólvangi í Hafnarfirði er orðinn svo mikill að fjötra hefur þurft aldraða í auknum mæli í öryggisskyni. Hjúkrunardeildarstjóri hefur sagt upp vegna ástandsins. Stöðugildum hefur fækkað um 25 á tveimur árum.

Á hjúkrunarheimilinu Sólvangi búa 56 aldraðir og þar er einnig pláss fyrir tvo í hvíldarinnlögn. Nýr frétta- og mannlífsvefur, gaflari.is, hefur síðustu tvo daga skrifað um ástandið. Í úttekt Landlæknisembættisins á Sólvangi sem gerð var að ósk stjórnenda Sólvangs árið 2012 segir að miðað við ummönnunarklukkustundir sé óráðlegt öryggis og gæða vegna að skera meira niður. Það þurfti Sólvangur samt að gera og fækkaði um fjögur stöðugildi í fyrra. Samtals hefur verið fækkað um 25 stöðugildi frá 2011. Á Sólvangi starfa nú 25 við umönnun. 

Á gaflari.is kemur fram að í auknum mæli hafi þurft að fjötra aldraða vegna niðurskurðarins. Rannveig Þöll Þórsdóttir, hjúkrunarforstjóri Sólvangs, sagði við Fréttastofu í morgun að eftir niðurskurðinn hefði komið í ljós að sumir heimilismenn voru farnir að detta meira en áður enda færri til að sinna þeim. Þá hafi starfsmenn Sólvangs fengið leyfi aðstandenda til þess að nota fjötra eða belti um suma heimilismenn í rúmi eða stól. Beltið er sett um mitti þeirra. Rannveig Þöll leggur áherslu á að fjötrarnir eða beltin séu öryggisbúnaður til að koma í veg fyrir að fólk fari sér að voða. 

Guðlaug Guðmundsdóttir, hjúkrunardeildarstjóri á einni af þremur deildum Sólvangs, hefur sagt upp störfum. Haft er eftir henni á gaflari.is að hún geti ekki lengur unnið við þessar aðstæður. Tími starfsfólks fari mest í að sinna líkamlegum þörfum heimilismanna en lítill tími gefist í félagslegar þarfir. Suma daga hafi verið undirmannað vegna veikinda starfsfólks, þá þurfi að forgangsraða sem þýði að þá komist ekki allir heimilismenn fram úr rúminu í stól eins og venjulega.