Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Alcoa heimtar skattfrelsi í 80 ár

22.10.2012 - 18:12
Mynd með færslu
 Mynd:
Álfyrirtækið Alcoa gerir að skilyrði fyrir að reisa álver á Grænlandi að Grænlendingar samþykki að álverið fái vinnsluleyfi í áttatíu ár og þurfi ekki að greiða skatta.

Þetta kemur fram í Berlingske, en blaðið segir að fyrirtækið viti að Grænlendingum sé mikið í mun að það reisi álver í Maniitsoq á Vestur-Grænlandi. Það vilji því knýja Grænlendinga til eftirgjafar í samningum. Klaus Georg Hansen, sem nú starfar fyrir Norrænu ráðherranefndina en var deildarstjóri í stjórnaráðinu í Nuuk, segir að Grænlendingar séu ekki jafningjar fulltrúa Alcoa í samningaviðræðum. Fyrirhugað álver yrði stærsta einstaka fjárfesting innan danska ríkisins og Alcoa vill lækka kostnað með því að fá að nota kínverska verkamenn við byggingu þess. Verkalýðsfélög bæði í Danmörku og Grænlandi eru mjög andvíg því og tala um yfirvöld væru að samþykkja félagsleg undirboð fallist þau á að kínverskir verkamenn byggi álverið.