Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

al-Shabaab lýsir ódæðinu í Mogadishu á hendur sér

31.12.2019 - 07:14
epa08092606 People gather at the scene of a large explosion near a check point in Mogadishu, Somalia, 28 December 2019. A source at a hospital said that the death toll has risen to at least 76 in what is believed to have been a car bombing. The explosion rocked an area near the junction called Ex-Control Afgoye, in a southwestern suburb of the capital Mogadishu.  EPA-EFE/SAID YUSUF WARSAME
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Hryðjuverkasamtökin al-Shabaab, hreyfing öfga-íslamista, hefur lýst ódæðisverkinu sem kostaði nær 90 mannslíf í Mogadishu, höfuðborg Sómalíu, á laugardag, á hendur sér. Í yfirlýsingu frá samtökunum segir að árásinni hafi verið beint gegn tyrkneskri bílalest sem ók hjá um svipað leyti og bílsprengja var sprengd í Mogadishu, með fyrrgreindum afleiðingum. Öryggislögregla Sómalíu heldur því hins vegar fram að árásin hafi verið „skipulögð af erlendu ríki.

Bílsprengjan sprakk á fjölförnum gatnamótum í sunnanverðri höfuðborginni á háannatíma á laugardag. Fjöldi bifreiða eyðilagðist og brann í árásinni, sem var sú mannskæðasta í landinu í tvö ár. Á annað hundrað særðust.

Í yfirlýsingu sem flutt var á netinu lýsti talsmaður al-Shabaab því yfir að liðsmenn samtakanna hafi gert árásina og beint henni gegn „bílalest tyrkneskra málaliða og vopnaðra sveita trúníðinga sem fylgdu þeim." Tilkynningunni fylgdi afar óvenjuleg afsökunarbeiðni, þar sem talsmaður samtakannna baðst fyrirgefningar fyrir það, hve margir saklausir borgarar hefðu farist í árásinni. Tveir tyrkneskir ríkisborgarar fórust í árásinni en á meðal hinna látnu voru líka sextán sómalskir háskólastúdentar og fjöldi annarra óbreyttra, sómalskra borgara.

Á Twittersíðu Nisa, öryggislögreglu og leyniþjónustu Sómalíu, segir að hún hafi þegar gefið ríkisstjórninni frumskýrslu sína um árásina og að hún telji að erlent ríki standi þar að baki. Ekki kemur fram, hvaða ríki það er, en hins vegar ætlar Nisa að leita aðstoðar erlendra leyniþjónustustofnana við framald rannsóknarinnar. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV