Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ákvörðun Trumps: „Þvert á allt sem við viljum sjá“

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að ákvörðun Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, um að setja á ferðabann frá Íslandi og öðrum Evrópulöndum, sé þvert á allt sem stjórnvöld vilji sjá gerast í alþjóðasamskiptum. Hann segir málið ekki bara alvarlegt fyrir ferðaþjónustuna, heldur fyrir hagkerfið allt. Ljóst sé að atvinnuleysi muni vaxa.

„Þetta er mikið högg og mikið reiðarslag fyrir okkur að svona ákvörðun skuli koma upp í fangið á okkur fyrirvaralaust. Og er auðvitað þvert á allt sem við viljum sjá gerast í alþjóðasamskiptum þar sem menn reyna í sameiningu að takast á við alþjóðlegan vanda. En við verðum að fást við þessa niðurstöðu, eiga í samskiptum eftir því sem það er hægt en ganga út frá því að við þurfum að takast á við þennan nýja veruleika. Þetta er afar alvarlegt mál, ekki bara fyrir ferðaþjónustuna heldur hagkerfið allt.“

Hver geta ykkar viðbrögð orðið?

„Það er auðvitað það sem við höfum verið að ræða. Það lá fyrir fyrirfram að það kæmi högg á íslenska ferðaþjónustu vegna veirunnar. Þetta kemur til viðbótar ofan í það og gerir málið mun alvarlegra. Við munum halda áfram með okkar áætlanir sem lúta að því að komast í gegnum þetta erfiða tímabil. Við njótum góðs af því að hafa búið í haginn á undanförnum árum. Þannig að við erum í sterkri stöðu líkt og Seðlabankinn hefur bent á, aldrei verið í betri stöðu til þess að takast á við þrengingar. En við erum með fjölþætt úrræði uppi á borðinu til skoðunar til þess að forða því að fyrirtæki sem eru í vanda lendi að óþörfu í kröggum út af tímabundnu ástandi og bjarga þannig störfum um leið. En auðvitað er ljóst að atvinnuleysi mun vaxa og við þurfum líka að huga að úrræðum á þeim endanum. Við erum í miðjum klíðum við að setja saman frumvarp sem fer fyrir þingið og fundum á hverjum degi um stöðuna.“

Nú kemur þetta áfall ofan á þau viðbrögð sem þið tilkynntuð á þriðjudaginn, hverju breytir þetta?

„Á þriðjudaginn tilkynntum við nokkrar ákveðnar aðgerðir sem við sáum í hendi okkar að þyrfti augljóslega að fara í. En við töluðum líka um frekari viðbrögð og tegund viðbragða. Þær sömu tegundir viðbragða eiga við hér, það er að segja að auka lausafjárfyrirgreiðslu, að reyna að bjarga störfum, að nota fjármálakerfið. Vextir hafa lækkað síðan við funduðum, frá Seðlabankanum. Hér mun reyna á samstarf við fjármálafyrirtæki og ríkisaðgerðir. Þannig að við höldum bara áfram á þeirri sömu braut og mörkuð hefur verið, og bregðumst síðan eftir atvikum við sérstökum aðstæðum sem upp kunna að koma.“

Fari allt á versta veg hjá þessu efnahagslega og samfélagslega fyrirtæki, Icelandair, kemur til greina að ríkið stígi þar inn?

„Það sem við lítum á sem okkar frumskyldu er að tryggja mjög góðar samgöngur við landið. Þetta er grunnþörf okkar sem samfélag, að vera í góðum samskiptum við umheiminn, fyrir viðskipti og öll tengsl við umheiminn, bæði vestur um haf og til Evrópu. Og við munum gera það sem þarf til þess að tryggja að samgöngur raskist ekki, til þess að grundvallarþörfum okkar sé mætt.“

Þannig að þú ert að segja að þið munið tryggja það að rekstur Icelandair haldi áfram?

„Þetta fer eftir aðstæðum og hvernig úr stöðunni spilast. En við lítum á það sem okkar frumskyldu að tryggja góðar samgöngur við landið,“ segir Bjarni.