Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ákvörðun Sigmundar kemur Sigurði ekki á óvart

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að það komi sér ekki á óvart að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður flokksins, hafi ákveðið að segja skilið við flokkinn. Þetta sé í takt við störf og yfirlýsingar Sigmundar frá því hann tapaði formannskjöri í Framsóknarflokkinum í fyrra. Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, harmar brotthvarf Sigmundar Davíðs.

„Um leið og ég vil segja að það er auðvitað alltaf dapurlegt þegar menn yfirgefa Framsóknarflokkinn, ég tala nú ekki um menn sem hafa verið í fararbroddi hans, á kemur þetta auðvitað ekkert á óvart,“ sagði Sigurður Ingi í hádegisfréttum RÚV. „Menn þekkja alla atburðarásina, frá því fráfarandi formaður gekk út af flokksþingi sínu síðastliðið haust eftir að hann hafði lotið í lægra haldi, yfirlýsingar sem hafa verið með reglulegu millibili allt síðan, stofnun Framfarafélags í vor sem var augljóslega gert með þeim formerkjum að mögulegt væri að breyta því í formlegt stjórnmálaafl ef menn fengju ekki framgang síns eigin metnaðar innan þess flokks þar sem þeir hafa starfað. Mér sýnist þetta nú vera að gerast í dag.“

Þarf tvo til í tangó

Sigurður Ingi segir að reynt hafi verið að bera klæði á vopnin í átökum Sigurður Inga og Sigmundar Davíðs, og innan flokksins. „En það þarf tvo til í tangó. Þegar menn hafa ekki viljað, hvorki starfað með þingflokknum, með forystunni, verið í vinnunni í þinginu, tekið þátt í stefnumörkun, lagt til hluti. Þarf tvo til í tangó. Það er einfaldlega þannig. Það er ekki hægt á einn veg að laga og lækna öll sár.“

Þetta er dapurlegt, segir Sigurður Ingi um ákvörðun Sigmundar Davíðs.

Ekki aðför heldur lýðræði

„Ég lít svo á að fólkið í hverju kjördæmi fyrir sig velji sitt fólk á lista,“ segir Sigurður Ingi aðspurður hvort atlaga sé gerð að Gunnari Braga Sveinssyni, oddvita flokksins í Norðvesturkjördæmi, eins og Sigmundur Davíð tilgreinir á heimasíðu sinni og Gunnar Bragi hefur ýjað að. „Takist menn á um það hverjir eigi að vera í fararbroddi í þessum kjördæmunum þá er það ekki aðför. Það heitir lýðræði og fólkið sjálft ræður för.“

Lilja harmar brotthvarf Sigmundar

„Ég harma það að hann skuli fara úr Framsókarflokknum, þetta er fyrrverandi formaður flokksins og fyrrverandi forsætisráðherra. Hann var mjög farsæll sem formaður framsóknarflokksins þannig að ég harma þessi tíðindi?“ segir Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins.

Hún segir of snemmt að segja til um hvort flokkurinn sé klofinn. „En það er auðvitað alltaf mjög slæmt að missa öflugt fólk.“

„VIð þurfum að einblína á þessar kosningar sem eru núna framundan í Framsókn en það er of snemmt að segja til um það,“ svarar Lilja spurningu um hvaða áhrif brotthvarf Sigmundar hafi á gengi Framsóknarflokksins. „Ég hef alltaf talað fyrir því að það sé best að fólk snúi bökum saman og einblíni á málefnin í stað þess að fara í svona innanflokksátök rétt fyrir kosningar og ég harma það að það hafi ekki tekist.“

Fréttin hefur verið uppfærð.