Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ákvæði mannanafnalaga mannréttindabrot

20.07.2016 - 16:08
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Innanríkisráðuneytið hefur samið drög að nýju frumvarpi um breytingar á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu. Samkvæmt því frumvarpi myndu lög um mannanöfn falla brott í heild sinni. Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslensku við Háskóla Íslands, hefur birt álit sitt á nýju lögunum. Hann telur þau mikla réttarbót og að mismunun sem felist í núgildandi lögum sé í raun mannréttindabrot.

Eiríkur birtir álit sitt í færslu á heimasíðu sinni. Þar fer hann ítarlega yfir ákvæði núgildandi laga sem falla brott og einnig um ákvæði frumvarpsdraganna. Nýju lögin séu mikil réttarbót þótt það sé ýmislegt sem þurfi að skýra eða fínpússa. Sem dæmi um óskýrt ákvæði nefnir hann að það sé ekki ljóst hvað það merki að nöfn skulu „falla að íslensku beygingarkerfi“.

Í samtali við fréttastofu segir Eiríkur það alveg ljóst að ákvæði sem fjalla um ættarnöfn standist ekki nútímahugmyndir um mannréttindi. Það að sumir megi halda ættarnöfnum og aðrir ekki standist ekki með vísan til stjórnarskrár og mannréttindasáttmála. 

Eðlilegt sé að fólk hafi miklar og sterkar skoðanir á þessu máli, það hafi verið þannig frá upphafi. Nafnið sé stór hluti af mannfólkinu og fólki þyki vænt um nafnið sitt. Margir telji einnig að útlensk nöfn og ættarnöfn séu árás á íslenska málið en hann sé ekki þeirrar skoðunar. 

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV