Flugvél af gerðinni P-8 Poseidon. Mynd: us

Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.
Ákváðu að skjóta ekki niður mannaða flugvél
21.06.2019 - 14:30
Herforingi í írönsku byltingavörðunum segir að ákvörðun hafi verið tekin um að skjóta ekki niður bandaríska flugvél með 35 innanborðs sem fylgt hafi njósnadróna sem Íranar skutu niður í fyrrakvöld.
„Með drónanum flaug amerísk P-8 flugvél með 35 innanborðs. Hún kom einnig inn í lofthelgi okkar en við ákváðum að skjóta hana ekki niður því tilgangur okkar með því að skjóta niður drónanna var að vara hryðjuverkamennina í her Bandaríkjanna við,“ sagði Amir Ali Hajizadeh, æðsti herforingi loftvarnardeildar byltingavarðanna, við blaðamenn í dag.
Íranar og Bandaríkjamenn deila um hvort að dróninn hafi farið inn í íranska lofthelgi. Bandaríkjaher segir hann hafa ekki flogið inn í lofthelgi landsins og hann verið á alþjóðlegu flugsvæði.
Mynd: AP
Amir Ali Hajizadeh herforingi í loftvarnardeild írönsku byltingavarðanna.