Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Akureyringar taka líklega á móti fleira fólki

23.11.2016 - 16:22
Mynd með færslu
Fjölskyldan kom saman ásamt vinum á Akureyri í dag og mótmælti stríðinu í Sýrlandi. Mynd: Facebook
Bæjarráð Akureyrar hefur tekið vel í beiðni velferðarráðuneytisins um að taka á móti einni fjölskyldu flóttafólks til viðbótar við þær fjórar sem bærinn tók við fyrr á þessu ári.

Bæjarstjóra hefur verið falið að ræða við ráðuneytið um þetta mál. Ástæða þess að ráðuneytið leitar til Akureyrar vegna þessarar fjölskyldu sérstaklega er sú að hún hefur tengsl við eina af þeim fjölskyldum sem komu til bæjarins í janúar.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs, sagði í samtali við fréttastofu í dag að líklegt væri að þessi fimm manna fjölskylda kæmi til Akureyrar eins og málin stæðu í dag. Hún bætist þá í hóp þeirra tuttugu og þriggja sem komu í janúar, en mikið var lagt í undirbúning þess og hafa fjölmargir sjálfboðaliðar aðstoðað fólkið við að aðlagast samfélaginu. 

Ein þeirra fjölskyldna sem kom til bæjarins vakti athygli í haust þegar hún stóð fyrir vikulegum mótmælafundum á ráðhústorginu, þar sem stríðinu í Sýrlandi var mótmælt. Í samtali við fréttastofu í september sagði Khattab Omar Almohammad að ómögulegt sé að ná sambandi við fólk í Aleppo, hann viti bara að árás hafi verið gerð á götuna þar sem fjölskyldan bjó áður og tíu hús hafi hrunið til grunna.