Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Akureyri tekur við fyrstu flóttamönnunum

21.09.2015 - 12:16
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Stjórnvöld munu í dag senda Flóttamannastofnun Sameinuðu Þjóðanna bréf, þar sem þau lýsa yfir vilja til að taka við flóttafólki. Formaður flóttamannanefndar segir Akureyri vera annað tveggja sveitarfélaga sem taki við fyrstu hópunum.

Ríkisstjórnin tilkynnti um helgina að tveimur milljörðum króna verði varið í aðstoð við flóttafólk á þessu ári og því næsta. Forsætisráðherra sagði að líklega kæmu 100 flóttamenn til landsins í ár.

Í dag senda stjórnvöld Flóttamannastofnun Sameinuðu Þjóðanna formlegt bréf þar sem þau lýsa vilja til að taka við flóttafólki frá stríðshrjáðum svæðum. Stefán Þór Björnsson er formaður flóttamannanefndar. „Þeir munu í framhaldi senda okkur Case-files eða gögn og skrár um það fólk sem kemur til greina. Það mun síðan fara fram vinna innan ráðuneytisins um að velja endanlega fólkið sem myndi koma til landsins. Það er líka fyrirhuga að búa til sérstakt myndband sem myndi kynna fyrir fólki lífsaðstæður hér á Íslandi og kosti og ókosti þess að búa hér á landi,“ segir Stefán.

Myndbandið yrði unnið í samstarfi við Rauða krossinn sem fengi Sýrlendinga búsetta hér á landi til að lesa inn á það.

Stefán býst við því að fyrstu hópar flóttafólks úr fóttamannabúðum í Líbanon komi til landsins í desember. Ísland hefur haft þá stefnu að taka á móti flóttafólki sem getur átt sérlega erfitt uppdráttar í heimalandi sínu, meðal annars veiku fólki, einstæðum mæðum með börn og hinsegin fólki. Stefán segir að fyrsta kastið bjóðist stjórnvöld til að taka við blönduðum hópi flóttafólks.

Tvö sveitarfélög veiti fyrstu hópunum viðtöku en síðar fylgi fleiri sveitarfélög í kjölfarið. „Ráðherra hefur nú þegar komið fram og talað um að Akureyri myndi taka við fyrsta hópnum og hvað varðar hitt sveitarfélagið þá á eftir að velja það endanlega.“ Hann segir jafnframt að fleiri sveitarfélög fylgi í kjölfarið og taki við flóttafólki. 

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV