Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Akureyrarflugvöllur kominn að þolmörkum

13.01.2018 - 11:56
Mynd með færslu
 Mynd: Markaðsstofa Norðurlands
Framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands segir líklegt að flugfélög hætti við að fljúga um Akureyrarflugvöll ef aðstaðan verður ekki bætt. Ferðamálaráðherra hyggst beita sér fyrir því að aðflugsbúnaður verði settur upp á vellinum. 

Ferðaskrifstofan Super Break stendur fyrir allt að 50 flugferðum milli Bretlands og Akureyrar næsta árið. Þegar fyrstu farþegar komu í gær var afar þröngt í flugstöðinni og hleypt inn í hollum. Lengi hefur staðið til að stækka flugstöðina og flughlaðið og segir Hjördís Þórhallsdóttir, flugvallarstjóri, að aukin umferð kalli á aðgerðir. „Við höfum bara ekki það mikið pláss að það þurftu farþegar að bíða úti á flughlaði. Svo var innritunin öll pökkuð af því við vorum með innanlandsflugið á sama tíma,“ segir Hjördís. 

Þarf að lágmarki þrefalt meira fjármagn

Þá gegni flugvöllurinn lykilhlutverki sem varaflugvöllur. Í vikunni lentu þar tvær breiðþotur vegna brautarskilyrða í Keflavík og þá þurfti að fresta innanlandsflugi vegna plássleysis. Hún segir að uppbygging strandi á fjármagni. „Það er búið að reikna út að það þurfi allavega 600 milljónir á ári bara til að viðhalda kerfinu eins og það er núna en við höfum ekki fengið nema kannski 200 milljónir,“ segir Hjördís. 

Þarf að setja upp aðflugsbúnað

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, segir að erlend flugfélög sýni því sífellt meiri áhuga að hefja flug til Akureyrar. Til þess þurfi að stækka aðstöðuna. Þá vantar aðflugsbúnað til að auðvelda lendingu, sem Arnheiður segir að kosti um 70 milljónir en geti haft afgerandi áhrif á framhaldið. „Við erum með flugfélag sem er að bíða og ég get alveg fullyrt það að það eru líkur á að við missum það ef þessi búnaður verður ekki settur upp í ár,“ segir hún. 

Væri sárt að sjá á eftir meiriháttar tækifæri

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, segir ljóst að byggja þurfi upp. Hvenær og hvernig sé ákvörðun samgönguráðherra, en hún ætlar að beita sér fyrir því að aðflugsbúnaður verði settur upp. „Það væri auðvitað mjög sárt að sjá á eftir meiriháttar tækifæri ef það strandar á 60 milljóna króna búnaði. En eins og ég segi, þetta heyrir undir fleiri ráðuneyti og er, eins og alltaf í ferðaþjónustunni, úti um allt. En það kallar þá líka á öfluga samvinnu,“ segir hún.