Akstursstefnu snúið á Laugavegi

14.04.2019 - 20:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Jón Þór - RÚV
Akstursstefnu á hluta Laugavegar verður breytt um næstu mánaðamót. Ökumönnum sem aka upp Klapparstíg verður beint til vinstri, austur Laugaveg, en ekki til hægri. Þetta er gert til þess að draga úr neikvæðum áhrifum bílaumferðar á Laugaveginum.

Hinn 1. maí verður götum í miðborg Reykjavíkur breytt í göngugötur. Göngugatan á Laugavegi byrjar í ár örlitlu neðar en undanfarin sumur. Það er til þess að hægt sé að hleypa umferð í öfuga átt upp Laugaveginn frá Klapparstíg að Frakkastíg. Áður hófst göngugatan við Vatnsstíg og allri umferð var beint þangað niður á Hverfisgötu.

Eins og venjulega þá eru skiptar skoðanir á því hvort loka eigi laugaveginum fyrir bílaumferð á sumrin eða ekki. Þeir sem eru á móti telja að ekki sé tekið nægilegt tillit til þeirra verslunareigenda við Laugaveg sem hafa sett sig upp á móti göngugötunni en meirihlutinn í borgarstjórn segir reynsluna af göngugötum í miðborginni vera góða og að kannanir hafi sýnt að ánægja borgarbúa sé mikil.

Að sögn Sigurborgar Óskar Haraldsdóttur, formanns samgöngu- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, er þetta fyrsti liður í því að gera Laugaveginn að varanlegri göngugötu og til að dreifa umferðinni betur, og koma í veg fyrir að bílar keyri óvart inn á göngugöturnar.

Verið er að undirbúa breytingar á deiliskipulagi til þess að varanlega göngugatan verði að veruleika. Í fyrsta fasa er gert ráð fyrir að göngugata verði frá Klapparstíg og niður úr allan ársins hring.

Samkvæmt athugun fréttastofu má gera ráð fyrir að það hafi ekki verið leyfilegt að aka upp Laugaveginn í nærri heila öld. Sagt er frá breytingu í umferðarlögum í Vísi árið 1932 sem skilyrti að ekið yrði niður Laugaveg og inn Hverfisgötu. Ekki er að sjá að þeim reglum hafi verið breytt síðan.

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi