Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Akstur: Fá úrræði fyrir fólk með fötlun

08.01.2018 - 20:21
Mynd: RÚV / RÚV
Vesturbyggð var óheimilt að takmarka akstursþjónustu við fatlaða konu við tiltekina félagsmiðstöð í bænum. Þetta er mat Umboðsmanns Alþingis, sem telur að málsmeðferð sveitarfélagsins og úrskurðarnefndar velferðarmála hafi farið í bága við lög. Hann telur að stjórnvöld verði að taka af allan vafa um rétt fatlaðs fólks til akstursþjónustu. Sonur konunnar segir fólk með fötlun vera varnarlaust og ekki hafa mörg tækifæri til að berjast.

Fréttastofa og Kastljós hafa á undanförnum árum fjallað um mál Sigríðar Guðbjartsdóttur og baráttu sonar hennar fyrir því að fá akstursþjónustu fyrir hana að heimili hennar að Láganúpi í Kollsvík, um 60 kílómetra frá Patreksfirði. Sveitarfélagið bauð út akstursþjónustuna í tvígang en í hvorugt skipti fékkst viðunandi tilboð að mati bæjarins og því náði málið ekki lengra. Málið þvældist í kerfinu og að endingu fékk Sigríður akstursþjónustu síðustu mánuðina að félagsheimili aldraðra í bænum en ekki á aðra áfangastaði.

Úrskurðarnefnd velferðarmála úrskurðaði á endanum að synjun Vesturbyggðar um frekari akstur stæði.  Mæðginin kærðu málið til Umboðsmanns Alþingis sem telur að úrskurðarnefndin hafi ekki tekið nægilega mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um fatlað fólk sem íslensk stjórnvöld hafa innleitt. Þar segir í 20. gr. að aðildarríki skuli gera árangursríkar ráðstafanir itl þess að tryggja að einstaklingum sé gert kleift að fara allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði fatlaðs fólks í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt, meðal annars með því að greiða fyrir því að fatlað fólk geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem, og þegar, því hentar og gegn viðráðanlegu gjaldi. 

Í áliti umboðsmanns kemur fram að úrskurðarnefndin telji að sveitarfélögum sé að meginstefnu falið að ákveða umfang akstursþjónustu í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Umboðsmaður telur það óviðunandi hversu óskýr þessi réttur sé og beinir af þeim sökum þeim tilmælum til félagsmálaráðherra að afmarka betur rétt fatlaðs fólks til akstursþjónustu með nánari og skýrari hætti í lögum. Þess má geta að Vesturbyggð veitir akstursþjónustu fyrir fatlað fólk í dag. Sonur Sigríðar sem barðist fyrir hana í málinu segir leitt að hún fái ekki að njóta þessarar niðurstöðu, en hún lést í haust. Hann segir fordæmisgildið mikilvægt. Rætt var við Valdimar í sjónvarpsfréttum og Kastljósi. „Það er afkskaplega ömurlegt til þess að hugsa að fatlaðir séu í þeirri stöðu að þeir séu svona varnarlausir. Þeir hafa í raun og veru ekki mikil úrræði til að berjast. Það eru viss úrræði í kerfinu en eru að mínu mati þannig að þau eru gjörn að hallast á sveif með peningavaldinu og hinu opinber. Það er mín tilfinning,“ segir Valdimar. 

Rætt var við Þuríði Hörpu Sigurðardóttur, formann Öryrkjabandalags Íslands og við Halldór Halldórsson, formann stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga í Kastljósi í kvöld. Þar sagði Halldór að lítil sveitarfélög þurfi mjög líklega að sækja pening til ríkisins til að standa straum af kostnaði við aksturinn. „Fyrir sveitarstjórnarstigið í heild held ég að þetta álit hafi ekki mikil áhrif því að þar er þessi þjónusta til staðar,“ sagði Halldór. 

Hægt er að horfa á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.