Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Akranes efst en Hafnarfjörður neðst

09.05.2018 - 19:38
Akranes stendur best og Hafnarfjörður verst þegar fjárhagur stærstu sveitarfélaga landsins er borinn saman. Þetta er niðurstaða greiningar Samtaka atvinnulífsins. Samtökin telja að góður rekstur sveitarfélaga skili sér í lægri skattheimtu.

Samtökin skoðuðu fjárhag tólf stærstu sveitarfélaganna, eða þeirra sem eru með yfir fjögur þúsund íbúa. Þau skoðuðu níu mismunandi þætti í rekstri sveitarfélaganna, svo sem eiginfjárhlutfall, skuldir, tekjur, útgjöld og aðra þætti. Sveitarfélögin fengu svo einkunn fyrir frammistöðu í hverjum lið fyrir sig. Heilt yfir kom Akranes best út, næst kom Seltjarnarnes og svo Garðabær. Í þremur neðstu sætunum eru hins vegar Reykjanesbær, Reykjavík og Hafnarfjörður sem rekur lestina. Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, segir að þessar niðurstöður komi ekki á óvart.

„Nei í raun ekki vegna þess að það sem Hafnarfjörður líður fyrir er mikil skuldsetning á meðan Akranes hefur verið að greiða niður skuldir og er ekki jafnskuldsett sveitarfélag. Og þess vegna kemur Akranes mjög vel út í öllum þessum samanburði,“ segir Ásdís.

Leggi áherslu á innviði

Í greiningunni er sérstaklega skoðað hvaða áhrif rekstur sveitarfélaganna hefur á skattheimtu þeirra.

„Það má í raun segja að þessi augljósu sannindi, sem við reynum að draga fram í okkar greiningu, er að góður rekstur er heilt yfir að skila sér í lægri skattheimtu á íbúa sem búa í því sveitarfélagi. Og við sjáum að það er mjög sterkt samband þarna á milli. Annars vegar rekstrarafkomu og hins vegar skattheimtunnar.“

En kemur það á óvart að sveitarfélög þar sem meðaltekjur eru háar komi fjárhagslega vel út?

„Í raun ekki vegna þess að auðvitað er það þannig að því hærri sem meðaltekjurnar eru, því hærri eru skatttekjurnar. Hins vegar berum við einnig saman hvernig skattheimta er á íbúa miðað við sama einstaklinginn. Einstakling með sömu tekjurnar og sem býr í sömu eign, og þá erum við að bera saman nákvæmlega sama hlutinn milli allra sveitarfélaganna. Og það sem kemur í ljós er að þau sveitarfélög sem eru heilt yfir að skila betri rekstri, eru jafnframt að skila lægri skattheimtu á íbúa.“

Ásdís segir að tekjur sveitarfélaganna hafi vaxið mikið að undanförnu, en ekki sé hægt að treysta á slíkan vöxt áfram. 

„Forgangsröðunin í þessar uppsveiflu hefur verið til launahækkana, en innviðirnir hafa setið eftir. Og sú áskorun sem er framundan er auðvitað sú uppsafnaða fjárfestingarþörf sem blasir við okkur hvað varðar innviðina. Þannig að við köllum eftir því að sveitarfélögin horfi á þessar áskoranir með raunhæfum leiðum og skapi það svigrúm sem til þarf til að mæta þessum áskorunum,“ segir Ásdís.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV