Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ákærður fyrir morð á fjölmiðlakonu

19.10.2018 - 13:32
A portrait of slain television reporter Viktoria Marinova is placed on the Liberty Monument next to flowers and candles during a vigil in Ruse, Bulgaria, Tuesday, Oct. 9, 2018. Bulgarian police are investigating the rape, beating and slaying of Marinova,
 Mynd: AP images
Tvítugur maður var ákærður í dag fyrir nauðgun og morð á búlgörsku fjölmiðlakonunni Viktoriu Marinovu. Mikil öryggisgæsla var í kringum hann þegar hann var leiddur inn í héraðsdómstól í bænum Ruse í norðurhluta Búlgaríu. Að sögn AFP fréttastofunnar játaði hann sök fyrir dómi, baðst afsökunar og sagðist ekki trúa því að hann gæti hafa gert þetta.

Samkvæmt heimildum AFP hafði hann þegar játað fyrir lögreglu í Þýskalandi, þar sem hann var handtekinn. Ef hann verður dæmdur sekur á hann yfir höfði sér tíu til 20 ára dóm fyrir nauðgunina og allt að lífstíðarfangelsi fyrir morðið.

Lík hinnar þrítugu Marinovu fannst nærri hlaupastíg við Dóná í Ruse, 6. október síðastliðinn. Yfirvöld sögðu hana hafa látið lífið af völdum höfuðhöggs og kafnað. Henni hafi svo verið nauðgað eftir að hún lést. Málið vakti óhug meðal Búlgara og var morðið á henni fordæmt víða um heim vegna mögulegra tengsla við umfjöllun hennar um fjármálaglæpi í heimalandinu. Nú virðist sem hún hafi orðið fórnarlamb fyrir tilviljun.