Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ákærður fyrir félög úr Panamaskjölunum

30.10.2019 - 10:42
epaselect epa05242948 Photo shows the building where the office of Panamanian law firm Mossack Fonseca is located in Panama City, Panama, 03 April 2016. 11 million documents from Mossack Fonseca database were leaked allegedly exposing high profile tax
 Mynd: EPA - EFE
Karlmaður á sjötugsaldri, sem er með lögheimili á Íslandi en býr í Danmörku, hefur verið ákærður fyrir meiriháttar skattalagabrot og peningaþvætti. Honum er meðal annars gefið að sök að hafa látið undir höfuð leggjast að gera grein fyrir eignarhaldi sínu á fjórum félögum á skattframtölum sínum fyrir árin 2011 til 2014.

Nafn mannsins er að finna í gagnagrunni Panamaskjalanna þar sem hann er sagður eigandi tveggja félaga í ákærunni.  Bæði voru skráð á Bresku Jómfrúareyjunum, annað var stofnað 2005 en hitt 2008.  Maðurinn var í fasteignaviðskiptum og átti meðal annars íbúðir í Austur-Evrópu og Afríku.

Héraðssaksóknari segir í ákærunni að maðurinn hafi ekki gefið upp þessi tvö félög og tvö önnur sem hann var skráður fyrir á skattframtölum sínum fyrir árin 2011 til 2014.  Þá hafi hann heldur ekki talið fram tekjur hjá einu félaganna upp á 26,6 milljónir og þannig komið sér hjá því að greiða tekjuskatt og útsvar upp á 11,1 milljón króna.  Maðurinn er síðan ákærður fyrir peningaþvætti fyrir að hafa nýtt sér þennan ávinning í eigin þágu.

Nokkrir Íslendingar hafa verið ákærðir fyrir skattalagabrot í tengslum við Panamaskjölin. Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, var dæmdur í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir peningaþvætti.  Hann hefur áfrýjað þeirri niðurstöðu til Landsréttar. Þá hafa systkinin í Sjólaskipum verið ákærð fyrir skattalagabrot en nöfn þeirra voru í Panamaskjölunum.