Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ákærðir fyrir sinn hlut í ópíóíðafaraldri

Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Tveir fyrrverandi stjórnendur bandaríska lyfjarisans Rochester Drug Cooperative, RDC, voru ákærðir í gær fyrir sinn þátt í ópíóíðafaraldrinum í Bandaríkjunum sem hefur kostað tugþúsundir mannslífa þar í landi. RDC er einn stærsti framleiðandi lyfseðilskyldra ópíóíða í Bandaríkjunum.

Fyrirtækið sjálft hefur náð samkomulagi við ríkissaksóknara í New York um að greiða 20 milljón dala sekt í stað sakfellingar. Með því að forðast sakfellingu heldur fyrirtækið leyfi sínu til þess að dreifa lyfjum, með loforði um breytingar á starfsemi sinni.

Laurence Doud, fyrrverandi framkvæmdastjóra RDC, og William Pietruszewski, fyrrverandi regluverði fyrirtækisins, er gefið að sök að hafa framfylgt skipunum sem þeir vissu að væru óheiðarlegar. RDC dreifir lyfjum til um 1.300 apóteka í Bandaríkjunum og veltir árlega um einum milljarði dala, jafnvirði um 120 milljarða króna. AFP fréttastofan hefur eftir rannsakendum að fyrirtækið hafi ekki greint frá að minnsta kosti tvö þúsund grunsamlegum pöntunum á lyfjum sem bandaríska lyfjaeftirlitið fylgist sérstaklega með. 

Í ákærunni segir að starfsmenn RDC hafi greint sakborningunum frá því í samtökum að nokkrir viðskiptavina fyrirtækisins væru verulega grunsamlegir. Óttuðust starfsmennirnir að viðskiptin ættu eftir að vekja grunsendir lyfjaeftirlitsins. Svo virðist sem þeir hafi látið áhyggjur undirmanna sinna sem vind um eyru þjóta, því samkæmt ákærunni jók RDC söluna á lyfseðilsskyldum ópíóíðum undir leiðsögn Douds.

Doud og Pietruszewski eru ákærðir fyrir samsæri um dreifingu á lyfseðilskyldum lyfjum. Verði þeir fundnir sekir eiga þeir yfir höfði sér að minnsta kosti 10 ára fangelsi, og allt upp í lífstíðardóm. Samkvæmt opinberum gögnum létust nærri 48 þúsund Bandaríkjamenn af völdum ofnotkunar ópíóíða árið 2017.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV