Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ákærðir fyrir mútuþægni og skattsvik

02.12.2019 - 14:02
Erlent · Innlent · Samherji
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd
Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu, og þrír aðrir hafa verið ákærðir fyrir að hafa þegið 103,6 milljónir namibískra dollara, jafnvirði 860 milljóna íslenskra króna, í greiðslur fyrir að tryggja fyrirtækjum í eigu Íslendinga eftirsóttan kvóta í landinu. Sexmenningarnir sem grunaðir eru um spillingu, fjársvik og peningaþvætti í tengslum við Samherja-málið í Namibíu verða í varðhaldi til 20. febrúar.

Þeir sem komu fyrir dómara í dag voru auk Shanghala og Eseu, James Hatuikulipi, sem hætti sem stjórnarformaður namibísku ríkisútgerðarinnar Fishcor í síðustu viku, Tamson 'Fitty' Hatuikulipi, tengdasonur Esau, Ricardo Gustavo, samstarfsmaður hans og Pius Mwatelulo, sem einnig tengist Hatuikulipi fjölskylduböndum.

Til stóð að taka fyrir kröfu sexmenningana um að verða leystir úr haldi gegn tryggingu en lögmenn þeirra féllu frá þeirri kröfu án þess skýra það frekar. Verða þeir því í varðhaldi til 20. febrúar.

The Namibian fjallar um ákærurnar sem lagðar hafa verið fram á hendur sexmenningunum. Esau er ákærður fyrir að hafa misbeitt valdi sínu sem sjávarútvegsráðherra á árunum 2014 til 2019. Shangala, James Hatuikulipi, Fitty Hatuikulipi og Gustavo er gert að hafa aðstoðað Esau við að misbeita valdi sínu og hagnast persónulega.

Esau, Shanghala, Hatuikulipi-frændurnir og Gustavo eru ákærðir fyrir að hafa þegið 103,6 milljónir namibískra dollara, jafnvirði 860 milljóna íslenskra króna, í greiðslur frá Mermaria Seafood Namibia og Esja Seafood á árunum 2014 til 2019. Þeir eru einnig ákærðir fyrir skattsvik og að hafa blekkt namibísku ríkisstjórnina. Þá eru allir sex mennirnir ákærðir fyrir peningaþvætti.