Ákæra 24 fyrir að kveikja gróðurelda

In this image made from video taken Dec. 21, 2019, a man sprays water on a fire in Lithgow, New South Wales state, Australia.  Australian Prime Minister Scott Morrison on Sunday apologized for taking a family vacation in Hawaii as deadly bushfires raged across several states, destroying homes and claiming the lives of two volunteer firefighters.(Australian Broadcasting Corporation via AP)
Maður bleytir í trjám í Nýja Suður Wales, í veikri von um að forða þeim frá eldinum Mynd: AP
Lögreglan í Nýja Suður-Wales hefur ákært 24 fyrir íkveikjur síðan í byrjun nóvember. Hermenn gengu hús úr húsi í bænum Parndana í suðurhluta Ástralíu í dag og hvöttu íbúa til að yfirgefa heimili sín vegna eldhafsins. Miklum hita er spáð um helgina og neyðarástandi er enn lýst yfir í Viktoríu-fylki.

Ekkert lát er á gróðureldunum í Ástralíu. Miklir þurrkar, hiti og þrumuveður með eldingum eru talin ein orsaka eldanna. Þeir hafa líka kviknað af mannavöldum og hefur lögregla í Nýja Suður-Wales höfðað mál gegn yfir 183 einstaklingum vegna 205 elda sem hafa kviknað í fylkinu síðan í nóvember, að því er segir á vefsíðu lögregluembættisins. 24 hafa verið ákærðir fyrir að hafa viljandi kveikt gróðurelda og 53 eiga yfir höfði sér málsókn fyrir að hafa ekki fylgt eldbanni sem er í gildi. Þá eru 47 sem eiga yfir höfði sér málsókn fyrir að hafa kastað sígarettum eða eldspýtum á jörðina. 

Hörmungarástand í Viktoríu-fylki var framlengt um 48 klukkutíma í dag. Þar er spáð hækkandi hita á morgun, föstudag. „Þetta er mjög hættulegt ástand sem blasir við okkur næstu 12, 24 og 36 klukkutímana,“ hefur AFP-fréttastofan eftir yfirmanni almannavarna í Viktoriu-fylki, Andrew Crisp. Ríkisstjóri fylkisins, Daniel Andrews, varar íbúa við því að erfitt sumar sé rétt að byrja. 

Síðasta ár var það hlýjasta í sögu Ástralíu, og var meðalhitinn um miðjan desember 41,9 gráður. Hið minnsta 26 hafa farist í landinu öllu vegna náttúruhamfaranna. Yfir 2.000 heimili hafa eyðilagst í eldunum sem ná yfir svæði sem samsvarar tæpum 80 prósentum af flatarmáli Íslands.