Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Airbnb opnar aftur á Vesturbakkann

11.04.2019 - 07:00
epa06496736 (FILE) - A general view of the illegal outpost  settlement of Havat Gilad in the West Bank, 10 January 2018 (reissued 04 January February 2018). The Israeli government unanimously approved a bill on 04 February  to authorized the Havat Gilad
Hluti Havat Gilad landtökubyggðar gyðinga á Vesturbakkanum. Mynd: EPA-EFE - EPA
Skammtímaleigusíðan Airbnb ætlar aftur að bjóða notendum sínum að leigja íbúðir á landtökubyggðum gyðinga á Vesturbakkanum. Stjórnendur síðunnar ákváðu að taka eignir á svæðinu af síðunni í fyrra, en ísraelskir lögmenn höfðuðu einkamál fyrir hönd eigenda íbúðanna og annarra.

Airbnb hafði legið undir ámæli árum saman vegna íbúða og herbergja sem í boði voru á Vesturbakkanum á síðunni. Það er þó löglegt samkvæmt bandarískum lögum, en þrátt fyrir það ákvað fyrirtækið að eyða öllum eignum á svæðinu af síðunni í nóvember. Airbnb sendi svo frá sér fréttatilkynningu í fyrrakvöld þar sem stjórnendur fyrirtækisins viðurkenndu að málið væri umdeilt. Airbnb ætli að semja í öllum dómsmálum sem eigendur íbúða og óánægðir gestir hafa höfðað gegn síðunni vegna ákvörðunarinnar í nóvember.

Gagnrýnin á Airbnb snerist að miklu leyti um að síðan hagnaðist á leigu eigna í landtökubyggðum. Fyrirtækið sagði í fréttatilkynningunni að það ætli að gefa allan hagnað af eignum á svæðinu héðan í frá til góðgerðarmála.

Benjamin Netanjahú, sem heldur að öllum líkindum embætti sínu sem forsætisráðherra Ísraels, sagðist í kosningabaráttu sinni ætla að innlima Vesturbakkann ef hann stæði uppi sem sigurvegari í kosningunum í vikunni. Að sögn Guardian óttast margir að þessi orð forsætisráðherrann hleypi illu blóði í Palestínumenn.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV