Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Airbnb boðar bann við „partíhúsum“

03.11.2019 - 01:57
epa07965540 Contra Costa County Sheriff  Search and Rescue crew walk up the driveway towards the scene of a shooting at a Halloween Party in short-term rental house in Orinda, California, USA, 01 November 2019. According to reports, four people were killed and several injured in a shooting on 31 October at a Halloween party in a private house.  EPA-EFE/JOHN G. MABANGLO
Frá vettvangi skotárásarinnar í Orinda, nærri San Francisco Mynd: EPA-EFE - EPA
Alþjóðlega leigumiðlunin Airbnb boðar blátt bann við útleigu húsa og íbúða til partístands og veisluhalda í gegnum vefgátt fyrirtækisins. Forstjóri Airbnb, Brian Chesky, tilkynnti þetta í gær, eftir að fréttir bárust af banvænni skothríð í húsi í bænum Orinda í Kaliforníu, sem leigt var í gegnum Airbnb.

Fimm manns létust í skotárás í ríflega 100 manna hrekkjavökuteiti sem haldið var í húsinu í óþökk eigandans; fjögur þeirra á staðnum og einn til viðbótar á sjúkrahúsi litlu síðar. Fólkið sem leigði húsið laug því til að það ætlaði að halda þar fámennt fjölskylduboð, en bauð síðan til mikillar veislu á samfélagsmiðlum.  

Chesky skrifar á Twitter, að frá og með deginum í dag verði öll „partíhús“ bönnuð hjá Airbnb og að fyrirtækið ætli að grípa til margvíslegra aðgerða til að draga úr hættunni á að fólk leigi húsnæði í gegnum Airbnb á fölskum forsendum. Færsla hans fær vægast sagt blendin viðbrögð frá viðskiptavinum fyrirtækisins, sem sumir hafa slæma reynslu af því að leita til aðstoðarteymis Airbnb þegar gestir þeirra hafa brotið allar reglur.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV