Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Áhyggjur af kvíaeldi í Eyjafirði óþarfar

04.03.2015 - 12:24
Mynd með færslu
Fiskeldiskvíar á Vestfjörðum. Mynd:
Verkefnastjóri við fyrirhugað sjókvíaeldi Fjarðalax í Eyjafirði segir áhyggjur af áformum fyrirtækisins þar óþarfar. Reynsla þess, tæknibúnaður og skipulag við eldið muni koma í veg fyrir inngrip í náttúruna.

Fulltrúar veiðifélaga í lax- og silungsveiðiám á Norðurlandi og fleiri, hafa lýst miklum áhyggjum af fyrirhuguðu 8000 tonna sjókvíaeldi í Eyjafirði. Þeir óttast meðal annars lúsasmit, erfðablöndun við villta fiskistofna og mengun.

Norðmenn að endurskoða áhættumat gagnvart laxeldi.

Fjarðalax stendur á bak við þessar hugmyndir og Jón Örn Pálsson, þróunarstjóri fyrirtækisins, segir að áhyggjurnar séu óþarfar. „Það verður mjög ítarlega gerð grein fyrir umhverfisáhrifum í umhverfismatsskýrslu. Meðal annars erfðaáhrifum á villta stofna."

Þar verði meðal annars byggt á 35 ára reynslu Norðmanna og þeirri þróun sem þar hefur orðið í sjókvíaeldi. Betri búnaður, öryggi og eftirlit þýði að þar sleppi fiskur nú í mun minna mæli en fyrr. Þá sýni rannsóknir að erfðablöndun þar sé verulega ofmetin og norskir vísindamenn séu því að endurmeta fyrri niðurstöður. „Þannig að núna eru Norðmenn að endurskoða sitt áhættumat gagnvart laxeldi og áhættu fyrir villta stofna," segir hann.

Eldinu stýrt með markvissum hætti innan svæða.

Varðandi hættuna á því að lús verði vistfræðilegt vandamál í Eyjafirði segir Jón að með kynslóðaskiptu eldi og reglulegri hvíld svæða verði komið í veg fyrir að lús nái að þroskast þannig að hún setjist á fisk í veiðiám. Einnig verði álaginu við eldið stýrt þannig að mengun verði innan marka. 

„Og með rannsóknum hér á Vestfjörðum í Patreksfirði, Tálknafirði og Arnarfirði, höfum við sýnt fram á að við náum að stýra álaginu algerlega," segir Jón Örn.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV