Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Áhyggjuefni að draga úr fjáraukningu

09.06.2019 - 18:51
Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Breytt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar veldur Páli Matthíassyni, forstjóra Landspítalans áhyggjum. Sjúkrahús fá 4,7 milljörðum minna en áður var lofað. Þá þurfi að skoða hvaða áhrif minni fjáraukning í hjúkrunarþjónustu hafi á spítalann, en féð átti að nota til að draga úr fráflæðisvanda.

Málaflokkar öryrkja, aldraðra, skóla, stjórnsýslu og umhverfis eru meðal þeirra sem fá minna fé í tillögu um nýja fimm ára fjármálaáætlun en í þeirri sem var kynnt í lok mars. Fyrir lá að breytingar yrðu gerðar á henni, en hún var kynnt tæpri viku áður en WOW air féll.

Þá verða fjárframlög til sjúkrahúsþjónustu rúmlega 4,7 milljörðum minni en í fyrri áætlun.  „Það er ekki borð fyrir báru í sjúkrahúsrekstri. Þannig það er áhyggjuefni ef að sú fyrirhugaða aukning sem var auglýst fyrir þremur mánuðum, ef draga á úr henni,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. „Við höfðum gert ráð fyrir því að mest allt af þessu fé færi einfaldlega í að mæta þeirri álagsaukningu sem er ár frá ári hjá okkur.“

Að auki verður hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta af um þremur milljörðum, og heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa rúmlega tveimur, frá því sem áður hafði verið kynnt. 

Landlæknir kynnti álit sitt á biðlistaátaki um miðjan maí. Þar var lagt til að bjóða út hjúkrunarþjónustu til að minnka álag á Landspítalanum. Páll hefur áhyggjur af því að draga eigi úr aukningu á fjárveitingum til hjúkrunarþjónustu, sem átti að efla - til að minnka fráflæðisvanda. 

„Með því móti að létta álag af sjúkrahúsþjónustu og færa í rauninni þjónustu sérstaklega aldraðra þar sem hún á betur heima. Ef þetta er raunin þarf að skoða það mjög vel. Ég tel að það sé áhyggjuefni ef draga á úr þeirri fyrirhuguðu aukningu sem lagt var upp með til hjúkrunarheimila en aftur við þurfum bara að skoða þetta í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið,“ segir Páll jafnframt.

Páll segir jafnframt að þetta hafi ekki áhrif á nýundirritaða heilbrigðisstefnu. „Hins vegar framkvæmdaáætlunin mun eflaust í framhaldinu auðvitað mótast að því fjármagni sem er til staðar.“

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV