Áhuginn á Hatara einsdæmi í sögu Íslendinga

Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Berg - RÚV

Áhuginn á Hatara einsdæmi í sögu Íslendinga

14.05.2019 - 12:15

Höfundar

Hatari freistar þess í kvöld að komast áfram í úrslit Eurovision-söngvakeppninnar. Björn Malmquist, fréttamaður RÚV í Tel Aviv, segir áhuga erlendra miðla á íslenska atriðinu ekki eiga sér hliðstæðu í sögu Íslendinga í keppninni.

Hatari tók forskot á sæluna í gær. Þá fór fram svokallað dómararennsli, en dómnefndir þátttökulanda gefa stig sem vega helming á móti símakosningu í kvöld. Björn Malmquist fréttamaður er í Tel Aviv og fylgdist með dómararennslinu í gær. 

„Þetta virtist ganga bara mjög vel. Ég heyrði aðeins í liðsmönnum Hatara eftir rennslið og þau voru bara ánægð.“

- Nú hafa erlendir miðlar fjallað mjög mikið um atriðið. Verðið þið varir við þennan mikla áhuga eða eru þetta bara Íslendingar að ofmeta áhuga útlendinga á okkur?

„Það held ég ekki. Það má bæði sjá og heyra umfjöllun miðla á borð við Guardian, BBC og fleiri um Hatara. Það er ljóslega áhugi á þessu atriði sem Ísland sendi í keppnina og ég held að sá áhugi eigi sér eiginlega ekki hliðstæðu hvað varðar þau lög og þá listamenn sem Íslendingar hafa hingað til sent í keppnina,“ segir Björn.

- Opnunarhátíðinni seinkaði örlítið í fyrrakvöld vegna mótmæla. Hafið þið orðið varir við eitthvað slíkt í dag?

„Nei, við Freyr Arnarson tökumaður höfum verið að ferðast um borgina í dag að safna efni í aðrar fréttir. Við höfum ekki orðið varir við neitt slíkt á ferðum okkar í dag.“ Björn segir sömuleiðis að öryggisgæsla sé mikil í borginni. 

Sautján lög keppa um að verða þau tíu sem komast áfram á úrslitakvöldið á laugardaginn kemur. Hatari er þrettánda atriðið á svið í kvöld. Keppnin hefst klukkan 19 og verða sjónvarpsfréttir því á dagskrá klukkan 18.20. Þá verður hægt að fylgjast með útsendingunni á ensku á RÚV 2. 

Tengdar fréttir

Popptónlist

Enn óvíst hvort Madonna komi fram í Tel Aviv

Tónlist

„Ertu að segja að ég sé happa?“

Menningarefni

Opnunarhátíð Eurovision seinkaði vegna mótmæla

Tónlist

„Fjarstæðukennt að vera í þessari keppni“