Áhorfendalaus úrslit kóróna allt sem á undan er gengið

Mynd: RÚV / RÚV

Áhorfendalaus úrslit kóróna allt sem á undan er gengið

13.03.2020 - 12:26
Úrslit Gettu betur fara fram í kvöld fyrir áhorfendalausum sal. Ákvörðunin var tekin eftir að skólastjórnendur skólanna tveggja sem eigast við, Menntaskólans í Reykjavík og Borgarholtsskóla, óskuðu eftir því við RÚV. Þetta hefur einu sinni áður gerst í sögu keppninnar, þegar áhorfendur tveggja skóla utan af landi voru veðurtepptir.

Vilhelm Anton Jónsson og Sævar Helgi Bragason, tveir af þremur dómurum keppninnar, og Kristjana Arnarsdóttir, spyrill, ræddu þessar áhugaverðu vendingar í Lestinni á Rás 1 í gær. 

Styr hefur staðið um keppnina undanfarið, sérstaklega eftir viðureign Kvennaskólans og MR í 8-liða úrslitum þar sem hljóð barst til keppenda úr sal. Stýrihópur ákvað þó að þar sem stjórnendur urðu ekki varir við þetta á meðan keppninni stóð stæðu úrslitin eins og reglur kveða á um. MR sigraði svo Verzlunarskólann í undanúrslitum og mætir til keppni í kvöld. Sævar Helgi segir þetta auðvitað hafa verið súrealíska daga undanfarið og þá ekki síst áhorfendaleysi kvöldsins. „Þetta kórónar eiginlega allt sem á undan er gengið,“ bætir hann við. 

Eðli keppninnar er auðvitað slíkt að áhorfendur eru á svæðinu trylltir en Kristjana segir að á svona tímum þurfi auðvitað allir að snúa saman bökum og reyna að hefta útbreiðslu veirunnar. Ef þetta er það sem þau geti gert þá geri þau það auðvitað. Einu sinni áður hafa utanaðkomandi áhrif litað keppnina á þennan hátt en það var þegar lið utan af landi áttust við. Þá urðu áhorfendur skólanna beggja veðurtepptir. 

Annars segjast þau spennt fyrir keppni kvöldsins sem verði án efa spennandi en til að bæta upp fyrir þann tíma sem oft vill fara í það að eiga í samskiptum við áhorfendur í sal verða gamlir tímar rifjaðir upp. „Einfaldlega svo að keppnin klárist ekki bara á tuttugu mínútum,“ segir Kristjana. 

Hægt er að hlusta á viðtalið úr Lestinni við Kristjönu, Vilhelm og Sævar í spilaranum hér fyrir ofan. Bein útsending frá Gettu betur hefst á RÚV klukkan 19:45 í kvöld.

Tengdar fréttir

Innlent

Engir áhorfendur á úrslitum Gettu betur

Innlent

Seinni undanúrslitum í Gettu betur er lokið

Mynd með færslu

Hverjir komast í úrslit Gettu betur?

Mynd með færslu

Hverjir komast í úrslit Gettu betur?