Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Áhöfnin talin af

18.03.2012 - 05:17
Mynd með færslu
 Mynd:
Sænska lögreglan hætti í gærkvöld björgunaraðgerðum í fjallinu Kebnekaise, hæsta fjalli Svíþjóðar, þar sem norsk Hercules herflutningavél fórst á fimmtudag.

Ákvörðunin var tekin eftir að björgunarmenn með hunda fundu líkamsleifar í hlíðum fjallsins. Fimm manna áhöfn vélarinnar er talin af. Leit heldur þó áfram í dag en rannsóknarnefnd flugslysa hefur tekið við rannsókn málsins. Vélin skall á hamravegg nærri tindi Kebnekaise, splundraðist og brak úr henni dreifðist víða. Áreksturinn hleypti af stað snjóflóðum. Neyðarsendir vélarinnar er fundinn. Hann verður tekinn til rannsóknar því hann sendi ekki frá sér nein merki. Ekki er vitað hvers vegna vélin fórst en veður var afleitt. Að sögn sænskra fjölmiðla benda ratsjárupplýsingar til þess að vélin hafi verið undir svo kallaðri öryggisflughæð.