Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Áhersla lögð á næsta umhverfi við slysstað

12.12.2019 - 15:54
Mynd: Björgvin Kolbeinsson / Björgvin Kolbeinsson
Björgunarsveitir leggja áherslu á að leita ungs pilts sem féll í Núpá í Sölvadal í Eyjafirði í gærkvöld í næsta umhverfi við slysstað. Aftakaveður er á svæðinu.

Ármann Ragnar Ægisson, vettvangsstjóri hjá flugbjörgunarsveit Reykjavíkur, segir aðstæður til leitar mjög slæmar. „Það er mjög mikill krapi í ánni og mjög erfitt að leita. Það er mikil áreynsla á fólk að leita í svona aðstæðum.“

Enn hefur ekki verið leitað langt niður af slysstað. „Það er búið að ganga niður með og það hefur vakt fylgst með ánni síðan að slysið varð en leitin sem slík í ánni hefur aðallega verið í kringum slysstað. “

Um 80 manns hvaðanæva að af landinu koma að leitinni. Þar af eru um tíu kafarar og hópur sem er sérhæfður í straumvatnsbjörgun. Þá er leitarhundur björgunarsveitarfólki innan handar. Fullur þungi er nú í leitinni á meðan bjart er. Ármann segir erfitt að athafna sig. „Það er mjög mikill krapi alls staðar í kringum mann, erfitt að ganga um og erfitt að athafna sig. Þú ferð ofan í ána og kemur upp - og þá frýs allt utan á þér.“

Landhelgisgæslan óskaði eftir aðstoð frá danska flughernum vegna leitarinnar og þess ástands sem hefur skapast út af óveðrinu. Von er á aukamannskap með C130 Hercules flugvél danska flughersins. 

Jóhannes Sigfússon, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Norðurlandi eystra, sagði í samtali við fréttastofu í morgun, að pilturinn hafi verið að aðstoða bónda við að hreinsa krapa frá inntaki rafstöðvar þegar krapabylgja hreif hann með sér. Bærinn í dalnum gengur fyrir rafmagni úr stöðinni.

Mynd: Björgvin Kolbeinsson / Björgvin Kolbeinsson
Ármann Ragnar Ægisson, vettvangsstjóri hjá Flugbjörgunarsveit Reykjavíkur.